140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[18:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða hér oft í dag og eins og kom fram í umræðum um fundarstjórn forseta fyrr í dag hefur hún litast dálítið af því að það tækifæri hefur verið hunsað í tvo mánuði að taka sérstaka umræðu um Evrópusambandið og stöðu Evrópusambandsviðræðnanna. Því hefur umræðan, bæði í ágætri ræðu hæstv. utanríkisráðherra og ræðum allflestra í dag, snúist að 70–80% leyti um Evrópusambandið en aðeins 20–30% um allt hitt áhugaverða og nauðsynlega umræðuefni um utanríkismál.

Við hv. þm. Magnús Orri Schram áttum í orðaskiptum áðan og það hefur verið tónn samfylkingarþingmanna og annarra þeirra þingmanna sem aðhyllast Evrópusambandið að tala mjög mikið um kosti evrunnar sem stöðugs og góðs gjaldmiðils. Það kom meira að segja fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að það væri mikilvægt að komast í skjól Evrópska seðlabankans til að fá hjálp við að losna við gjaldeyrishöftin. Það er mjög sérstakt að í andsvari áðan sagði hv. þm. Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, að aðalmunurinn á Írlandi og Íslandi væri sá að á Íslandi hefðu menn borið gæfu til að skera skuldir einkabanka frá og ekki setja þær yfir á skattgreiðendur, á íbúa landsins, en það hefðu Írar gert. Það er sérkennilegt vegna þess að þetta er akkúrat sú leið sem Samfylkingin leggur til. Það kom fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra og hefur komið fram hjá öðrum samfylkingarþingmönnum, það er leiðin sem snýst um að komast í skjól hjá Evrópska seðlabankanum og fá aðstoð við að losna við gjaldeyrishöftin. Það kom ágætlega fram í ræðu hv. þm. Lilju Mósesdóttur og samtali hennar við hæstv. utanríkisráðherra. Það er fólgið í þeirri snjóhengju sem er að mati utanríkisráðherra orðin 1.200 milljarðar og tengist auðvitað hinum föllnu bönkum. Þá getum við tekið enn og aftur umræðuna um hvernig hafi tekist til hjá ríkisstjórninni þegar hún skipti upp bönkunum á sínum tíma og endurreisti þá. Svo voru jöklabréfin þar fyrir utan sem við höfum þekkt um nokkurt skeið. Hugmyndafræðin er einmitt sú og Evrópusambandið hefur sýnt það í viðtölum og samningaviðræðum, ef samningaviðræður skyldi kalla, við Grikkland, Spán og Ítalíu þar sem það hefur sett inn sína embættismenn til að stjórna þessum löndum, farið í harðan niðurskurð en látið skuldir bankakerfisins lenda á íbúum og skattgreiðendum þessara landa, alveg eins og gerðist á Írlandi. Ef það er lausnin sem er fólgin í að láta snjóhengju upp á 1.200 milljarða hverfa með því að fara inn í Evrópska seðlabankann, fá til þess lán og koma svo skuldunum yfir á skattborgara Íslands er það nákvæmlega sama aðferðin og Írar fóru í. Það sem verra er er að Samfylkingunni mun í seinni tilraun sinni takast að koma skuldum einkabanka yfir á þjóðina.

Ég man umræðuna hér um Icesave-málið. Sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar töldu það í það minnsta siðferðilega skyldu okkar Íslendinga að greiða þessa skuld og þess vegna ættum við að taka þær kvaðir á okkar herðar. Nú vitum við betur og allir vita hvers lags áþján það hefði verið ef við hefðum tekið Icesave-samning 1 og sett hann á herðar okkar ofan á allt annað.

Hér hefur verið tæpt á ýmsu í umræðunni. Hvorki hv. þm. Magnús Orri Schram né aðrir sem hafa verið spurðir svöruðu nægilega skilmerkilega hvort þeir treystu þjóðinni til að taka þá umræðu og atkvæðagreiðslu núna um hvort við ættum að halda áfram þessum viðræðum og aðlögun að Evrópusambandslagakerfinu og öðrum kerfum þar. Fyrr en það liggur fyrir mun Evrópusambandið aldrei samþykkja aðildarsamning eða sá aðildarsamningur mun aldrei koma fram ef við erum ekki búin að beygja okkur undir þau kerfi. Það vita allir í hjarta sínu að 300 þús. manna þjóð, ein þjóð, mun ekki beygja 27 þjóðríki í Evrópu og 500 milljóna manna markað til að breyta sínum lögum og kerfum og aðlaga sig Íslandi. Það vita allir.

Hæstv. utanríkisráðherra vildi ekki gera hlé á viðræðunum og það þrátt fyrir til að mynda þær hótanir sem Evrópusambandið hefur verið með á okkur, bæði vegna makríldeilunnar og svo aftur Icesave-málsins þar sem Evrópusambandið henti hinni gráu skikkju sem það hafði yfir sér allan Icesave-samningatímann þegar það þóttist aldrei koma að máli, frú forseti. Hér vorum við með hverja yfirlýsinguna á fætur annarri og hver benti á annan en Evrópusambandið sagðist aldrei koma nálægt þessu, þetta væru bara tvíhliða samningar milli annars vegar Hollands og hins vegar Íslands og Bretlands og Íslands. Annað hefur komið á daginn en þrátt fyrir þessa stöðu vill hæstv. utanríkisráðherra og Samfylkingin, og það verður þá að segja ríkisstjórnin með Vinstri græna í eftirdragi, halda áfram þessari vegferð, kyssa á vönd þeirra kvalara sem eru í málaferlum við okkur hægri og vinstri. Það þykir mér sérkennilegt.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi í andsvari áðan að þrátt fyrir að skoðanakannanir séu anddregnar Evrópusambandinu hafi það oft komið upp áður í öðrum löndum og nefndi Möltu sem dæmi. Það má hins vegar einmitt taka Möltu sem dæmi um þjóð sem hætti umsóknarferlinu í fjögur ár. Þeir sem aðhyllast það í raun að Ísland gangi í Evrópusambandið og að það muni takast að ná fram samningum ættu einmitt að horfa til Möltu og fordæmisins þar, að menn ýttu samningaviðræðunum til hliðar í fjögur ár, tóku þær þá upp aftur, og þá töldu menn að umræðan í landinu væri nægilega þroskuð. Þá lá fyrir samningur, Evrópusambandið var þá tilbúið að gera samning og Malta gekk í það. Ég ætla ekki að tala fyrir því. Ég hitti um daginn þingflokksformenn þeirra tveggja flokka sem þar eru á þingi og ég spurði þann þingflokksformanninn sem vissulega var í stjórnarandstöðu hvernig sjávarútvegi og landbúnaði hefði reitt af innan Evrópusambandsins. Hér hefur oft og tíðum verið tekið fram að Maltverjar hafi fengið alls kyns undanþágur varðandi sjávarútveginn. Hann sagði einfaldlega, frú forseti, og ég biðst afsökunar á orðbragðinu, að landbúnaður og sjávarútvegur væri dauður á Möltu, að Evrópusambandið og stefna ríkisstjórnarinnar væri búin að drepa niður þessar atvinnugreinar á Möltu vegna þess að ríkisstjórnin var ekki tilbúin að verja þær. Maltverjar eru nú orðnir gjörháðir innflutningi á matvælum. Á sama hátt uppgötvuðu Grikkir í sinni kreppu að þeir hefðu gengið of langt og ættu ekki einu sinni gjaldeyri eða fjármuni til að flytja inn mat til þess kreppuhrjáða lands.

Fordæmi fyrir því að draga umsóknir til baka eru því fyrir hendi og þau þurfa ekki endilega að leiða til þess að menn taki aldrei umræðuna upp aftur eins og í Sviss. Það getur gerst á hinn veginn en klárlega er það þannig, frú forseti, að sumarið 2009 þegar Ísland var á hnjánum og menn sáu ekki alveg út úr augum hvaða leiðir við ættum fram á við voru miklu fleiri sem töldu að það að skoða Evrópusambandið, að kíkja í pakkann eins og menn tala jafnvel um enn þann dag í dag, væri einhver leið fyrir okkur Íslendinga. Núna, 2012, er öldin önnur. Það er allt annar svipur á landinu, við erum búin að ná vopnum okkar hvað það varðar að við erum búin að átta okkur á því að við eigum gríðarlegar auðlindir til lands og sjávar sem og mannauð sem við getum nýtt til að byggja hér upp eitt öflugasta og ríkasta samfélag hins vestræna heims og alls heimsins. Ég treysti þjóðinni til að fara hér fram með þjóðaratkvæðagreiðslu og svara spurningunni hvort við eigum að halda aðildarviðræðunum áfram. Ég treysti líka þjóðinni til að greiða atkvæði um samning sem hugsanlega verður lagður fram einhvern tíma í framtíðinni. Ég held að það séu mörg ár í það. Ég treysti reyndar þjóðinni til að fella þann samning vegna þess að hagsmunir okkar eru einfaldlega meiri utan Evrópusambandsins en innan.

Ég ætlaði aðeins að koma inn á aðra þætti og ætla að nota síðustu mínútur mínar af ræðunni til þess. Skýrsla frá utanríkisráðherra og ráðuneytinu er ítarleg og inniheldur margt efni. Það er eðlilegt að Evrópusambandið og staðan þar sé umfangsmikil í þessu en það er þó ánægjulegt að sjá að samstarf Norðurlanda og styrking samstarfs við Grænland og Færeyjar skuli raðast fremst í þá skýrslu því að það er skoðun mín að norðurslóðir séu það svæði sem við eigum að efla samstarfið mun meira við.

Ég ætlaði að koma aðeins inn á norðurskautsumræðuna. Ég var á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins á Grænlandi um daginn þar sem norðurslóðaástandið og staðan var til umræðu. Í skýrslunni er talað um að fleiri ríki séu á leiðinni að sækja um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og að íslensk stjórnvöld séu frekar jákvæð á það eftir því sem ég best get lesið út úr skýrslunni. Fyrir utan ýmis lönd Evrópu hafa Kína, Japan, Singapúr og Suður-Kórea óskað eftir að fá áheyrn að þessu ráði. Á þessari þemaráðstefnu sem ég nefndi kom fram að áheyrnarfulltrúar geta haft áhrif, Bretland kom til dæmis með því að vera áheyrnarfulltrúi þarna í veg fyrir umræðu um Sellafield-kjarnorkuendurvinnsluna. Ótti okkar Íslendinga til margra áratuga er að Sellafield gæti valdið mengunarslysi á norðurslóðum og í hafinu við Ísland og haft gríðarleg áhrif. Það hljómar lýðræðislega og ágætt að hafa áheyrnarfulltrúa með til að allir geti tekið þátt í að móta stefnuna og það sé líklegra að menn framfylgi henni en þeir geta haft veruleg áhrif.

Ég ætla að fara hratt yfir sögu svo ég geti undir lok ræðu minnar komið aðeins inn á nokkra aðra þætti. Það er mjög jákvætt að fjalla um vaxandi samstarf um borgaralegt öryggi og viðbrögð við umhverfisvá á vestnorræna svæðinu. Á bls. 14 er líka fjallað ágætlega um styrkingu samstarfs við Færeyjar og Grænland. Ég held að þetta séu allt saman hin jákvæðustu mál og hefði viljað sjá að við settum meiri kraft í þau. Það væri gaman ef hæstv. utanríkisráðherra mundi upplýsa um það í lokaræðu sinni hvað það væri hlutfallslega miklu meiri kraftur í þeirri vinnu miðað við þá gríðarlegu orku og mannafla sem settur er í Evrópusambandsaðildarviðræðurnar og þann þátt utanríkismálanna.

Undir lokin ætla ég aðeins að fjalla um viðskipta- og fríverslunarsamninga. Af hverju hafa samningar sem lágu fyrir ekki tekið gildi? Það kemur bara fram að þeir hafi ekki tekið gildi. Ég ætlaði líka að spyrja hæstv. ráðherra út í fríverslunarviðræður við Indland, hvenær þeim muni ljúka og af hverju. Eins var um margfrægar viðræður við Kínverja. Upphaflega var þeim slitið og mig minnir að það hafi komið fram hjá ráðherra á fyrri þingum að Kínverjar hafi slitið þeim vegna þess að við værum í viðræðum við Evrópusambandið, en nú er aftur á móti af hálfu Íslands óskað eftir því að næsta lota fari fram sem fyrst. Það virðist þá vera stefnubreyting af hálfu Íslands, kannski vísbending um að ráðherra sé búinn að gefast upp á því trúboði að koma Íslandi inn í Evrópusambandið og nú sé hann að reyna að bjarga því sem bjargað verður með því að setja af stað undir lok kjörtímabilsins viðræður við önnur ríki.

Ég kemst ekki lengra í þessari ræðu, frú forseti, og lýk hér máli mínu. Ég ætlaði reyndar að komast aðeins inn í Hoyvíkursamninginn en geri það við seinna tækifæri.