140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[19:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. Ég geri mér grein fyrir því að sennileg er ekki unnt á þessari stundu að svara af meiri nákvæmni en hann gerir.

Ég velti fyrir mér hvort hugsanlega væri hægt að fá nánari svör um hvernig vinnan til dæmis á sviði landbúnaðarmála gengur, með tilliti til samráðs við hagsmunaaðila og breiðara samráðs á því sviði. Sama má í rauninni spyrja um í sambandi við sjávarútvegsmálin vegna þess að á fyrri stigum að minnsta kosti, ég veit ekki hvernig staðan er í dag, hafa komið kvartanir frá helstu hagsmunasamtökum á þessu sviði um skort á samráði eða erfiðleika í samráði.

Ég vildi því kanna hvort hæstv. ráðherra gæti upplýst um þetta, vegna þess að það hlýtur auðvitað að skipta gríðarlega miklu máli við mótun samningsafstöðu á þessum viðkvæmu sviðum hver afstaða helstu hagsmunaaðila er til þeirrar stöðu.