140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[19:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður verður að virða mér það til vorkunnar að ég hef enga kristalskúlu til þess að geta spáð nákvæmlega fyrir um framvindu framtíðarinnar. Ef svo væri væri ég sennilega ekki ráðherra heldur stundaði eitthvað allt annað og miklu ábatasamara.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður varpaði til mín í fyrra andsvari sínu svaraði ég þeim eins nákvæmlega og ég gat. Ég lýsti meira að segja ákveðnum efasemdum mínum. Um samráðið er það að segja að fulltrúar hagsmunasamtakanna sitja í samningahópunum þar sem þessar afstöður verða að lokum teknar og mótaðar.

Að því er varðar sjávarútveginn og fulltrúa hans segi ég bara þetta: Ég og ráðuneytið höfum átt gott samstarf við þá. Enginn dregur dul á meiningarmuninn sem þar er, en ég tel að fulltrúar sjávarútvegsins hafi komið sjónarmiðum sínum mjög skýrt á framfæri og þeir hafa í alla staði verið heilir í afstöðu sinni. Ég kvarta að engu leyti undan samstarfi við þá og ég hef getað átt það í þeim trúnaði sem stundum þarf til þess að máta hluti. Ég hef tekið tillit til óska þeirra varðandi þá sem sitja í samningahópnum.

Um samráðið við bændur tel ég alveg klárt að þeir eigi allan kost á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í gegnum sína öflugu fulltrúa sem þar sitja. Þeir hafa sömuleiðis lagt til mannskap til að búa til miklar skýrslur sem ég tel að gætu orðið undirstaða ákveðinnar sáttar í ágreiningsefnum.

Að öðru leyti lýsti ég því töluvert nákvæmlega, fannst mér, að nú er unnið að þessari tímasettu aðgerðaáætlun sem óskað var eftir og sett í opnunarviðmiðin, og að umfjöllun um hana lokinni í utanríkismálanefnd taka menn til við samningsafstöðugerðina. Sérfræðingar mínir segja mér hins vegar að aðgerðaáætlun sé að ýmsu leyti unnin á forsendum sem nýtast við gerð og skrif samningsafstöðunnar.