140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[20:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að geta rætt, og haft til þess ágætan tíma, þau fjölmörgu álitamál sem snúa að okkur Íslendingum hvað varðar utanríkismál. Ég held að aldrei hafi verið brýnna að ræða þessi mál í þinginu og þess vegna fagna ég framlagningu þessarar skýrslu.

Eftir að hafa rennt yfir hana tel ég að aðalatriðið fyrir okkur Íslendinga sé að móta styrkari stefnu hvað norðurslóðir varðar. Að sjálfsögðu skipta mál tengd aðildarferlinu að ESB líka miklu máli en hagsmunir okkar Íslendinga liggja fyrst og fremst í legu landsins og þeim óþrjótandi tækifærum og auðlindum sem finnast á norðurslóðum.

Það er kannski best að byrja á því að rifja upp að Hillary Clinton gekk út af fundi til að mótmæla því að Íslendingar ættu ekki aðild að fundi þar sem málefni norðurslóða voru rædd. Ég benti á það og þá vaknaði hæstv. utanríkisráðherra til lífsins og ég get alveg sagt að ég hef verið frekar ánægður með að sjá hinn nýtilkomna áhuga utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar á norðurslóðum vegna þess að þar búa óþrjótandi tækifæri, eins og ég sagði áðan.

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin gæti vel að hagsmunum Íslands þegar kemur að siglingum yfir norðurheimskautið sem nú er talað um. Ótrúleg tækifæri felast í því að byggja umskipunar- eða uppskipunarhöfn á norðausturhorni landsins. Það liggja fyrir samþykktir, bæði hjá Sambandi sveitarfélaga á norðausturhorninu og Austurlandi, um að sú höfn verði staðsett milli Vopnafjarðar og Þórshafnar. Ég tel skynsamlegt að Íslendingar standi saman að staðsetningu slíkrar hafnar. Hrepparígur og deilur um staðsetningu gætu einfaldlega eyðilagt verkefnin fyrir okkur vegna þess að mörg lönd vilja fá slíka höfn.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst ríkisstjórnin ekki alveg hafa vaknað til lífsins um hversu mikla hagsmuni er að ræða fyrir Ísland. Ég bendi á grein sem prófessor í opinberri stefnumótun frá Harvard skrifaði í Boston Globe fyrir um tveimur, þremur vikum, birtist í Herald Tribune, þar sem hann var að benda Bandaríkjunum á hversu gríðarlega miklir hagsmunir gætu falist í því að reisa uppskipunarhöfn á eyjunni St. Paul í Beringssundi. Þar búa um 40 þúsund manns. Eyjan er þannig staðsett að hún yrði þá væntanlega fyrsti viðkomustaður skipa sem mundu sigla frá Kína, Suður-Kóreu og Japan upp Kyrrahafið. Þau mundu væntanlega umskipa í stóra fraktara sem færu svo yfir heimsskautssvæðið.

Þessi prófessor frá Harvard benti á að þeir hagsmunir sem gætu verið í húfi jöfnuðust á við uppbyggingu Hoover-stíflunnar til að setja þetta í samhengi fyrir Bandaríkjamenn, sem átta sig á því hversu miklu máli Hoover-stíflan skiptir fyrir efnahag landsins. Nú er það þannig að Norðmenn og Rússar hugsa sér líka gott til glóðarinnar. Það má í raun segja að við séum í samkeppni við þau lönd og einnig hina risastóru höfn í Rotterdam. En fróðir menn segja að hagkvæmast geti verið að sigla skipunum bæði fram hjá Rússlandi og Noregi alla leið til Íslands vegna þess að þetta eru stór og öflug skip og sá ís sem hugsanlega væri á hafinu fyrir norðan okkur og meðfram strönd Noregs gæti einfaldlega fælt frá þau skip sem kæmu frá Rotterdam að sækja þann farm sem kæmi frá Asíu. Þeir telja að þetta sé jafnvel hagkvæmara en að stóru skipin mundu sigla alla leið til Rotterdam vegna þess að stór hluti af þessum vörum fer væntanlega til Norður-Ameríku.

En til þess að þetta verði að veruleika verða íslensk stjórnvöld að berjast fyrir þessu og vera með puttann á púlsinum. Ég bar fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra, sem fer með samgöngumálin í landinu, og að hans mati var tími til að skoða og bíða vegna þess að þessar siglingar væru ekki að hefjast, hann nefndi 10–20 ár. En nú er staðan þannig að þetta getur gerst á allra næstu árum. Þetta eru gríðarlegir hagsmunir, ekki bara fyrir norðausturhornið sem er kalt í atvinnulegu tilliti heldur fyrir allt Ísland, mundi minnka atvinnuleysi og skipa Íslandi sess sem viðkomustað þessara flutninga.

Ég hef verið svo heppin að fá að fara til Taívans og sjá svona uppskipunarhöfn. Það var ótrúlegt að sjá fraktara lóna þar fyrir utan í tugatali til að bíða eftir þjónustu. Þá gerði ég mér ljóst hversu gríðarlega miklir hagsmunir eru í húfi. Ég held að þetta sé ástæða þess að fjölmörg ríki hafa að undanförnu sótt um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, eins og Ítalía, Japan, Kína og Suður-Kórea. Af hverju skyldu þessi lönd vilja komast þar inn? Jú, ég tel að það sé fyrst og fremst út af þessum norðurslóðasiglingum.

Ég bendi á að Singapúr hefur sótt um áheyrnaraðild og í fyrstu virðist það land koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í þessa umræðu. Af hverju í ósköpunum er Singapúr að sækja um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu? Það er vegna þess að Singapúr á gríðarlegra hagsmuna að gæta, sú uppskipunarhöfn sem þar er mundi missa gríðarlega mikið ef markvisst yrði farið í norðurslóðasiglingar sem miklar vonir eru bundnar við.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram gríðarlega mörg mál og áhöld eru um hvort hægt verður að ljúka þeim öllum fyrir þinglok í byrjun júní. En ég vil samt beina því til hæstv. utanríkisráðherra að hann hlutist til um það að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga. Ég þykist vita að hann sé henni samþykkur eða ég vil að minnsta kosti vona það. Ég tel gríðarlega mikilvægt að af framkvæmdarvaldinu verði mótuð sú stefna að gæta að þessum hagsmunum með ráðum og dáð.

Þá hef ég ekki einu sinni nefnt hina miklu möguleika sem felast í auðlindanýtingu á norðurslóðum, t.d. í olíu, gasi og ýmsum málum. Menn tala um að þarna séu auðlindir framtíðarinnar. Við vitum um mikilvægi þess að vera með hreint vatn og legu Íslands hvað matvælaframleiðslu varðar en ótrúlegir möguleikar eru fólgnir í vinnslu á olíugasi og málmum. Ég veit að Íslendingar binda miklar vonir við að olía finnist við Drekasvæðið vegna þess að það getur skapað vinnu og aukið umsvif á Íslandi.

Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu. Á flokksþingi Framsóknarflokksins árið 2009 var sagt að Framsóknarflokkurinn væri reiðubúinn að sækja um aðild að undangengnum mjög ströngum skilyrðum. Nú er það þannig að þessi skilyrði er hvergi að finna í þessari skýrslu og í raun hafa þau skilyrði aldrei litið dagsins ljós. Það er nú þannig með skilyrði almennt að ef menn setja skilyrði fyrir einhverju þá verða skilyrðin að vera til staðar ef menn ætla að leggja af stað í ferðalag. Þess vegna hef ég sagt að það hafi verið skýr stefna Framsóknarflokksins að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu, sú stefna hefur nú verið staðfest ítrekað. Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem mun berjast harðast gegn aðild að Evrópusambandinu.

Það er sorglegt að hugsa til þess að tekist hafi að selja umsóknina og umsóknarferlið sem einhvers konar lottóvinning, að fá að kíkja í pakkann, sjáum hvað við fáum, eins og upp úr hattinum verði dregin einhvers konar töfrakanína sem leysi allan vanda Íslands. Það er í raun hlálegt að lesa upp úr skýrslunni þar sem fullyrt er að ljóst sé að í aðild að sambandinu felist margvísleg tækifæri sem mikilvægt sé að horfa til. Það er svo að sjálfsögðu ekki rökfært frekar. Svo er talað um að byggðastefna Evrópusambandsins skapi margvísleg tækifæri fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni. Ég veit ekki hvaða tækifæri það eiga að vera vegna þess að það er ekki rökstutt frekar í þessari skýrslu.

Sagt er að Evrópuviðræðurnar séu vel á veg komnar. Ég held að það sé rangt vegna þess að það á eftir að semja um langstærstu málin og í raun einu málin sem þarf að semja um. Ísland er jú aðili að EES-samningnum þar sem við tökum yfir marga flokka sem heyra til Evrópusambandsins.

Í fyrsta lagi er það sjávarútvegur. Ég get bara sagt það mjög skýrt að ég vil ekki semja um sjávarútveg Íslendinga. Ég vil ekki að aðrar þjóðir hafi heimild til að veiða fiskinn í sjónum. Ég tel engar aðrar þjóðir hafa heimild til að veiða fiskinn í sjónum. Ég tel enga hagsmuni geta komið í staðinn fyrir þessa mikilvægu auðlind landsins.

Fyrir tveimur, þremur árum sögðu þingmenn Samfylkingarinnar að bankakerfið væri það sem Íslendingar ættu að vinna að og upptaka evru mundi leysa allan vanda. Ég hef aldrei áður haft jafnsterka skoðun á því að Íslendingar eigi að halda í íslensku krónuna. Fullyrt hefur verið að við búum ekki yfir þeim aga sem þurfi til að stjórna eigin gjaldmiðli en ég vil benda á að hvort sem menn í Svíþjóð vilja hafa Evrópusambandið áfram eða ekki þá er engin umræða um að taka upp evruna. Svíar bjuggu við sama ástand og við Íslendingar búum við í dag, agaleysi í fjármálum. Þeir sögðu mér reyndar þann brandara að fyrir 20 árum hefðu ráðherrar haft ráðstöfunarfé, sögðu að engri þjóð dytti í hug að hafa þann háttinn á lengur. En þannig er staðan hér á Íslandi og nýlega var verið að auka þetta ráðstöfunarfé, það var verið að tífalda ráðstöfunarfé menntamálaráðherra.

Virðulegi forseti. Ég veit að ég er búinn með tímann. Ég vil bara að lokum segja: Það er gott að geta rætt þessi mál. Ég hef hlustað á margar ræður í dag. Þær hafa flestar verið góðar og málefnalegar og ég vona að stefna mín og míns flokks hafi komið mjög skýrt fram í ræðum okkar framsóknarmanna.