140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[20:55]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég bý kannski við þann galla almennt í stjórnmálum að kunna ekki að tala þvert um hug mér eða láta eins og ég sé einhverrar annarrar skoðunar en ég er. Ég var eins og fram hefur komið þeirrar skoðunar strax í upphafi að fást ætti fram skýrt lýðræðislegt umboð af eða á um þá spurningu hvort Ísland ætti yfir höfuð að ganga þessa vegferð. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi engan samning til að taka upplýsta afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu, langt í frá. Þess vegna erum við með ríka og sterka Evrópusinna hér á þingi og ríka og sterka Evrópuandstæðinga vegna þess að við vitum í öllum meginatriðum um hvað spurningarnar snúast. Ef fram færi upplýst, viðamikið upplýsingaferli til þjóðarinnar um hvað Evrópusambandið er, og hvað Ísland þarf að gangast undir almennt til að ganga þar inn, væri það liður í almennri upplýstri ákvörðun í þessu máli.

Ég er að sjálfsögðu fylgjandi því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort þjóðin vill halda þessum viðræðum áfram. Mér finnst það rétt og skylt að slík atkvæðagreiðsla fari fram. Það sem mér finnst kannski mest um vert í slíku ferli er að ef vel er að verki staðið þá fáum við einmitt tækifæri til upplýstrar umræðu um hvað þetta allt þýðir, á hvaða leið Evrópusambandið er og hvar Evrópusambandið stendur með tilliti til allra þeirra sáttmála sem fyrir liggja. Það væri mjög þarft og gott að mínu mati.