140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu og ég get verið sammála þingmanninum um ansi margt en ekki allt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í fund utanríkismálanefndar sem við sátum sameiginlega í morgun. Það hefur verið rætt á þinginu í dag hvað þar gerðist og ætla ég ekki að rekja það í smáatriðum. En í stuttu útgáfunni er það það að þingsályktunartillaga um samþykkt rammasamnings Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, svokallað IPA-mál, var tekin út með harla óvenjulegum hætti. Ég kom 13 mínútum, að ég held, of seint á fundinn og rétt náði að malda í móinn árangurslaust. En hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir kom stuttu síðar, nokkrum mínútum síðar, og missti af tækifærinu til að taka þátt í þeirri atkvæðagreiðslu sem þarna fór fram.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Þau sjónarmið eru vissulega uppi að ekki eigi að taka við styrkjum í gegnum IPA en þó er ljóst að af einhverjum verkefnum verður og í fjárlögum 2012 er gert ráð fyrir á tekjuhlið 400 millj. kr. …“

Nú er það þannig, ef mig misminnir ekki, að flokksráð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur ályktað um þessa styrki. Því vildi ég, þar sem þingmaðurinn hafði ekki tækifæri í morgun til að láta sitt álit í ljós á þessu máli, inna þingmanninn eftir því og þá kannski spyrja bara beint út hvort hún hefði stutt það að málið yrði tekið út úr nefndinni á fundinum í morgun.