140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þarf að leiðrétta hv. þingmann. Það er rangt hjá honum að komið hafi fram hjá mörgum einskær vilji til að draga umsóknina til baka. Það hefur ekki komið fram hjá neinum þingflokki heilt yfir nema hjá þingflokki Framsóknarflokksins. (ÁsmD: Sjálfstæðisflokknum.) Nei. Hv. þm. Bjarni Benediktsson tók það algerlega skýrt fram í ræðu sinni í dag. Hann notaði orðin að skjóta á frest. (Gripið fram í.) Það var líka algerlega skýrt í máli formanns Framsóknarflokksins, hann tók það sjálfur fram í andsvari í dag, muni ég rétt, að hann hefði ekki gengið lengra en tala um að slá á frest og hann tiltók ákveðnar forsendur fyrir því hve lengi sá frestur ætti að vara. Það var tiltekin atburðarás sem þurfti að ganga fram til að hægt væri annaðhvort að slá þær af eða halda áfram.

Hv. þingmaður getur skoðað ræður síns eigin formanns. En auðvitað er það þannig að þingmenn Framsóknarflokksins eru gleymnir á fortíð sína. Í þeirri umræðu um gjaldmiðilinn sem hér hefur átt sér stað hafa til dæmis bæði hv. þm. Höskuldur Þórhallsson og formaður Framsóknarflokksins gleymt þeirri staðreynd að þeir háðu kosningabaráttu á grundvelli stefnu um gjaldmiðil sem er nákvæmlega eins og sú stefna sem ég lýsi í inngangi minnar skýrslu.

Komum þá að spurningu hv. þingmanns um þjóðaratkvæði. Í fyrsta lagi vísa ég um það efni til svars míns við nákvæmlega sömu spurningu sem borin var fram við mig einhvern tíma á síðasta hausti. Ég er ekkert hræddur við slíka atkvæðagreiðslu. En ég gef engar fyrirskipanir, hvorki um að menn taki sprettinn í IPA-málum né því máli. Nefndirnar gera þetta upp við sig. Hins vegar get ég sagt hv. þingmanni hvernig niðurstaðan yrði í þeirri atkvæðagreiðslu. Ég veit hver hún yrði. Ég kann að telja hausa. Ég veit hvernig staðan er. Og ég hafna því algerlega að það sé meirihlutavilji meðal þjóðarinnar fyrir því að hætta viðræðum. Hv. þingmaður fór með rangt mál í fyrri ræðum sínum í dag þegar hann sagði að ef menn tækju saman skoðanakannanir á árinu kæmi það í ljós. Hið þveröfuga birtist þá.