140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:24]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki nema von að hæstv. utanríkisráðherra sé, þó að liðið sé aðeins á kvöldið, eilítið hvekktur, vegna þess að staðreyndin er sú að þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið undanfarið ár hafa sýnt mjög nauman meiri hluta, ýmist fyrir því að draga Evrópusambandsumsóknina til baka eða halda henni áfram. Hæstv. utanríkisráðherra getur bara kynnt sér þetta sjálfur með því að fletta upp þeim könnunum sem gerðar hafa verið, bæði netkönnunum, símakönnunum o.fl.

Það er gott að fá á hreint að hæstv. utanríkisráðherra mun ekki beita sér gegn því að þessi tillaga komist inn í þingið en við þekkjum auðvitað að framkvæmdarvaldið hefur beitt sér fyrir því að ákveðin mál komist áfram eða gegn því að þau komist áfram.

Miðað við það sem komið hefur fram hjá þeim sem hafa talað í dag og léð máls á þessu þá hygg ég að töluvert mikill stuðningur sé í þingsalnum fyrir því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið skuli áfram haldið eða ekki. Það voru talsverðar fréttir að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og hv. þingmenn Hreyfingarinnar skyldu taka undir þetta og ég held að það væri mjög fróðlegt bæði fyrir mig og hæstv. utanríkisráðherra að hleypa þessu máli inn í þingið, fá það í atkvæðagreiðslu því þá sjáum við hvor okkar hefur rétt fyrir sér.