140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[21:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað mun Sjálfstæðisflokkurinn gera það. Ég þekki þá tegund af flokkum sem hann er, í þeirri stöðu sem hann er núna, tækifærissinnaður stjórnarandstöðuflokkur. Þeir gera nú margt. [Hlátur í þingsal.]

Bara til að rifja það upp fyrir hv. þingmanni, það sem var markvert við landsfund Sjálfstæðisflokksins var að hann felldi, ekki einu sinni heldur tvisvar á sama fundinum, tillögu um að slíta viðræðunum. Það er ekkert flóknara en það.

Varðandi síðan þá spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín er það flest rétt sem hún hafði eftir mér að því marki að ég sagði að nú tæki við þriggja til fimm mánaða ferli áður en niðurstaða lægi fyrir. Ég sagði hins vegar ekkert um að síðan tæki við einhverra mánaða bið á meðan þeir taka ákvörðun um hvaða heimildir þeir hyggist nota. Það getur allt eins verið, ég þekki það ekki, að það verði (Gripið fram í.) hratt en það er hópur sem samanstendur af fulltrúum allra aðildarlandanna sem framkvæmdastjórnin þarf að hafa samráð við. Þegar búið er að ákveða rammann þarf framkvæmdastjórnin að hafa þetta samráð um hvort og þá til hvaða aðgerða verður gripið. Við notum auðvitað tímann þangað til til að reyna að sýna fram á að það sem nú liggur fyrir af hálfu sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins er tóm vitleysa því að það stangast á við að minnsta kosti tvo alþjóðlega samninga, hugsanlega þrjá. Það finnst mér nokkuð skýrt. Þá er ég að tala um ályktun eins og hún kom frá sjávarútvegsnefndinni. Um þetta hefur hins vegar verið fjallað, eins og hv. þingmaður veit, á tveimur fundum í utanríkismálanefnd tiltölulega nýlega þar sem ég var og verður gert á þeim þriðja sem ég held að verði haldinn á morgun þar sem sérfræðingar munu fara yfir þetta og greina það. Í ráðuneytinu hjá mér liggur fyrir lögfræðileg álitsgerð á því hvað þetta þýðir.