140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

réttarstaða fatlaðra til bifreiðakaupa.

[10:34]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vekur athygli á því að réttarstaða fjölskyldna sé óljós um þjónustu vegna kaupa á sérútbúnum bifreiðum o.fl. Ég ætla hreinskilnislega að viðurkenna að ég hef ekki svör við þeim spurningum sem hv. þingmaður ber fram. Ég hef þó svarað skriflegri fyrirspurn almennt um hvort víkka eigi út reglurnar varðandi kaup á bifreiðum og þar hefur þvælst fyrir okkur það fjármagn sem fjárlögin leyfa okkur til að breyta þessum reglum. Um er að ræða umtalsverðan kostnað ef við ætlum að rýmka reglurnar en miðað við þá lýsingu sem hv. þingmaður kemur hér með, um að fólki sé ráðlagt að sækja um en megi búast við að beiðninni verði hafnað og síðan verði að kæra, er þetta auðvitað óþolandi samskiptamáti. Við þurfum að skerpa og skýra reglurnar þannig að menn geti vitað að hverju er gengið jafnvel þó að það geti ekki leyst vanda allra.

Ég verð bara að biðja hv. þingmann velvirðingar á því að hafa ekki gögn. Þetta er óundirbúinn fyrirspurnatími þannig að ég get ekki svarað þessu betur en þetta.