140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

verðbólga og efnahagshorfur.

[10:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú mælist ársverðbólgan 6,4% og er óbreytt frá fyrra mánuði. Það virðist vera að dragast upp sú mynd hér á landi að það sé að festa sig í sessi verðbólga sem er vel yfir 5% og ef fram heldur sem horfir er nokkuð ljóst að verði þeirri stefnu fylgt í peningamálum sem við höfum séð í Seðlabankanum horfum við fram á vaxtahækkanir Seðlabankans.

Það efnahagsumhverfi sem við búum við einkennist af litlum hagvexti og miklu atvinnuleysi. Þegar horft er til baka um 12 mánuði hækka tveir liðir neysluverðs mest: Bensínverðið, og ríkisstjórnin hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum þar, og hvað annað? Opinberar hækkanir. Fyrir utan bensín og olíu hefur ekkert hækkað vísitölu neysluverðs meira en opinberar hækkanir þannig að ríkisstjórnin sjálf á með opinberum hækkunum verulegan hlut í verðbólgunni sem er nú að myndast, sem mun hugsanlega leiða til þess að Seðlabankinn hækki vexti.

Hvernig hyggst efnahags- og viðskiptaráðherra svara fyrir hlut ríkisins í verðbólgunni með þeim stanslausu hækkunum sem verið hafa viðloðandi á hverju einasta ári á helstu útgjaldaliðum heimilanna í landinu? Ég get nefnt að virðisaukaskatturinn var á sínum tíma hækkaður, bensín- og olíugjald hækkar á hverju einasta ári, kolefnisgjöld hafa verið innleidd og hækkuð, áfengis- og tóbaksgjöld hafa hækkað og sérstakur skattur hefur verið lagður á raforku og heitt vatn. Allt leggur þetta verðbólgunni lið undir dyggri forustu forsætisráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra Íslands. Það er óásættanlegt og mun ekki gera annað (Forseti hringir.) en bitna á heimilunum í landinu og setja á endanum vinnumarkaðinn í uppnám.