140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

verðbólga og efnahagshorfur.

[10:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta var eiginlega umræða um efnahagsmál og ég er alveg til í að taka hana en vil þá gjarnan hafa aðeins meiri tíma.

Varðandi verðbólguna er það mat bæði Seðlabankans og Hagstofunnar að hún hafi náð hámarki og muni fara lækkandi á næstu mánuðum og til áramóta en það er augljóst mál að það er eitthvað lengra í land en áður var talið í að hún komist aftur inn fyrir vikmörk Seðlabankans, þ.e. það eru litlar líkur á að hún nái því fyrir áramót.

Gengið hefur loksins örlítið snúið við, sem betur fer, eftir veikingarferil frá því á síðustu mánuðum síðasta árs og fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Mun það að sjálfsögðu fljótlega hjálpa til og ef ekki verða frekari hækkanir á olíu og hrávörum eru allar forsendur fyrir því að verðbólgan fari núna að gefa eftir á nýjan leik.

Varðandi gjaldskrárhækkanir ríkis, og hv. þingmaður nefndi ekki sveitarfélögin, er það vissulega rétt að þær höfðu sín áhrif um áramótin og stóðu kannski fyrir um einum þriðja af verðbólgutilefnunum sem þá voru í pípunum, en þær eru að sjálfsögðu gengnar í gegn núna og þar var fyrst og fremst í tilviki ríkisins um verðlagsuppfærslur tekjustofna að ræða. Gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga fóru langt umfram verðlag í sumum tilvikum og að sjálfsögðu hefur það áhrif á meðan það gengur í gegn.

Hv. þingmaður talar um tíma lítils hagvaxtar og mikils atvinnuleysis. Já, öllu má nafn gefa. Engu að síður er þeim hagvexti sem spáð er fyrir Ísland í ár næsthæsta talan sem spáð er fyrir nokkurt Evrópuríki. Atvinnuleysi er sem betur fer á niðurleið eins og ýmsar tölur frá Vinnumálastofnun og Hagstofunni í gær gefa okkur skýrar vísbendingar um. Langtímaatvinnuleysi hefur til dæmis minnkað umtalsvert milli ára og atvinnuleysið í mars í ár er 2,2 prósentustigum lægra en það var í mars 2010 og 1,5 prósentustigum lægra en það var í mars 2011. Atvinnuleysið er því sem betur fer á niðurleið. Hv. þingmanni til hughreystingar er atvinnuleysi á Íslandi nálægt því að vera 4 prósentustigum lægra en það er að meðaltali í Evrópu. (Gripið fram í.)