140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

sjúklingar sem bíða eftir hjúkrunarrými.

[11:05]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það kom fram í inngangsorðunum að þetta hefði ekkert með fjármálastöðuna að gera. Það er alls ekki rétt. Menn verða að horfast í augu við það að það sem við vorum að vinna með árið 2007–2008 var 20% froða sem við höfum því miður ekki náð að fylla upp í í staðinn. Íslenska ríkið tapaði 20% af tekjum sínum og lenti í því að borga þar til viðbótar 15% vexti, það hefur haft áhrif líka.

Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að þetta sé beinn sparnaður. Ég tek heils hugar undir að þetta er óeðlilegt og óþolandi fyrir það fólk sem þarna er. Þetta er líka óþolandi hvað varðar afköstin á Landspítalanum, til að ná að nýta þau rúm, en við munum að sjálfsögðu nýta þau áfram og spörum ekki þannig en þurfum að borga um 8 millj. kr. fyrir hvert rými á hjúkrunarheimili. Það er fyrst og fremst hagræðing í því að við aukum þjónustu og gerum betur. Það er ekki peningalegur sparnaður.