140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

matvæli.

138. mál
[11:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið unnið á vettvangi atvinnuveganefndar og kemur út með þessum breytingum sem samþykktar voru við 2. umr. Farið var faglega í gegnum þetta og það var mjög ánægjuleg vinna. Hún er þarna sett fram og sett inn í þessi lög sem gerir að verkum að menn munu ekki ganga á eftir kvenfélögum eða íþróttafélögum eða öðrum sem halda kökubasar eða annað slíkt. Þetta hefur stundum verið kallað stóra muffinsmálið. Því er sem sagt að ljúka í fullri sátt og ég fagna því mjög. Ég þakka framsögumanni málsins, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, kærlega fyrir hennar utanumhald um það.

Þetta sýnir enn einu sinni að sú nýbreytni sem tekin var upp í nefndarvinnu, þar sem framsögumenn vinna milli funda og halda utan um mál, er að skila sér. Mikið hefur verið unnið að þessu milli funda og ég fagna því að allsherjarsamstaða er um þetta mikilvæga mál.