140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Fjölmiðlar eru í stöðugri þróun og stjórnvöld verða að taka mið af því að búa þeim lagalega umgjörð við hæfi, það á ekki síður við um fjölmiðla í almannaþágu en aðra.

Árið 2007 voru sett ný lög um Ríkisútvarpið sem fólu í sér verulegar breytingar, þar á meðal breytt rekstrarform, auk þess sem tekjustofni Ríkisútvarpsins var breytt, lögbundin afnotagjöld voru afnumin og í stað þeirra lagt sérstakt gjald, svokallað útvarpsgjald, á skattgreiðendur sem ætlað var að renna markað til Ríkisútvarpsins. Það breyttist síðar meir, þ.e. haustið 2008, og ég mun fara yfir það á eftir.

Um mitt ár 2009 þegar rúmlega tveggja ára reynsla var fengin á ný lög um þær breytingar sem á þeim höfðu verið gerðar ákvað ég að skipa starfshóp um almannaútvarp á Íslandi með það verkefni að meta áhrif hinna nýju laga og gera tillögur um úrbætur ef með þyrfti. Starfshópurinn skilaði skýrslu með tillögum sínum í byrjun árs 2010 sem voru kynntar opinberlega og þær kynnti ég líka fyrir stjórn og stjórnendum Ríkisútvarpsins með ósk um að þær tillögur sem ekki kölluðu á beinar lagabreytingar yrðu teknar til greina og var brugðist vel við því. Margar af tillögum starfshópsins um úrbætur á Ríkisútvarpinu kölluðu hins vegar á breytingar á gildandi lögum, auk þess sem athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um tilhögun ríkisaðstoðar til Ríkisútvarpsins voru tilefni lagabreytinga. Af því leiddi að ég skipaði í framhaldinu nefnd um endurskoðun laga um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007, þar sem taka átti mið af tillögum starfshópsins og athugasemdum ESA auk þess að líta til löggjafar nágrannalanda Íslands, sérstaklega Norðurlandanna.

Þá var nefndinni einnig ætlað að taka afstöðu til eftirfarandi þátta:

Hvort auka þyrfti sjálfstæði Ríkisútvarpsins sem fjölmiðils í almannaþágu.

Hvort stofna ætti sérstakt dótturfélag utan um starfsemi Ríkisútvarpsins sem ekki félli undir útvarpsþjónustu í almannaþágu.

Hvort auka þyrfti gagnsæi í rekstri og lýðræðis í stjórnunarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins.

Skoða leiðir til að auka og tryggja sjálfstæði og starfsöryggi starfsmanna Ríkisútvarpsins við fréttir og tengda dagskrárgerð.

Skoða ábyrgð mennta- og menningarmálaráðherra á hlutafélaginu Ríkisútvarpið ohf.

Skoða hlutverk stjórnar og skipunar hennar og kosti og galla þess að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Eins og þingheimi er vafalaust minnisstætt var það kannski stærsta deiluefnið þegar lögin voru sett árið 2007.

Nefndin skilaði niðurstöðu sinni í formi frumvarpsdraga í febrúar síðastliðnum og voru þau sett í opið samráðsferli þar sem öllum gafst kostur á að skila inn athugasemdum. Í því ferli barst fjöldi athugasemda, bæði frá hagsmunaaðilum sem og frá einstaklingum víðs vegar um land. Mér fannst raunar ánægjulegt að finna þann mikla áhuga sem fólk um land allt virtist hafa á starfsemi Ríkisútvarpsins og starfsumhverfi þess. Við lokafrágang frumvarpsins var eins og gengur tekið tillit til sumra þessara athugasemda og annarra ekki.

Með hliðsjón af niðurstöðum fyrrgreinds starfshóps um almannaútvarp á Íslandi er með þessu frumvarpi mörkuð sú stefna að Ríkisútvarpið leggi megináherslu á það hlutverk sitt að veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Af því leiðir að lýðræðis-, menningar- og samfélagslegt hlutverk Ríkisútvarpsins er í forgrunni en viðskiptasjónarmið í starfseminni eiga að verða víkjandi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerð verði skýr aðgreining á fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annarri starfsemi, meðal annars til að varna því að viðskiptaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvarðanir um dagskrárefni. Er þetta í samræmi við það grundvallarsjónarmið sem hefur ríkt í starfsemi ríkisrekinna fjölmiðla á Norðurlöndum og víðar, t.d. í Bretlandi, og hefur skapað þeim sérstöðu meðal ljósvakamiðla. Sú sérstaða er meðal annars talin helsta ástæðan fyrir hinu almenna trausti almennings á fréttaflutningi ríkisrekinna fjölmiðla.

Margir telja að tilveruréttur almannaþjónustumiðlanna í framtíðinni muni byggjast á því að þeir tryggi almenningi hlutlæga og áreiðanlega fjölmiðlaþjónustu. Þetta á sérstaklega við um það að framboð af misáreiðanlegum upplýsingum á netinu eykst sífellt og skilin milli þess að við getum kallað hlutdrægar upplýsingar og frétta verða sífellt óljósari og þar sem upplýsingar og fréttir eru beinlínis taldar vera verslunarvara.

Frumvarpið leggur þá skyldu á herðar Ríkisútvarpinu að það sjái til þess að útsendingar þess nái til allra landsmanna án tillits til búsetu og efnahags og er það eini fjölmiðillinn sem býr við þá kvöð. Þá er kveðið á um að dagskrárefni þess skuli vera fjölbreytt og stjórn Ríkisútvarpsins móti dagskrárstefnu til lengri tíma. Í því felst að hún taki í stórum dráttum afstöðu til hvernig eigi að koma til móts við þarfir og óskir notenda um fjölbreytt og gott efnisframboð án þess þó að hafa afskipti af einstökum dagskrárliðum. Í þessu efni er rétt að leggja áherslu á kröfur almennings um gæði og fjölbreytni. Ef efnisframboð er einhæft er hætta á að fjölmiðlaþjónustan nái ekki til fjöldans og missi af þeim sökum gildi sitt og sérstöðu.

Í frumvarpinu er tekin sú afstaða að Ríkisútvarpið sé ein helsta stoð lýðræðissamfélagsins. Því er ætlað að sinna því hlutverki með því að veita landsmönnum upplýsingar sem þeir geta treyst að taki ekki mið af sérstökum sjónarmiðum eða hagsmunum einstakra hagsmunahópa, stjórnmálasamtaka eða einstaklinga. Þannig gegnir Ríkisútvarpið lykilhlutverki við að gera fólki kleift að móta skoðanir sínar og draga ályktanir út frá réttum upplýsingum að því marki sem það er hægt. Hér er miðað við þá grundvallarforsendu að hverju lýðræðissamfélagi sé nauðsynlegt að reka að minnsta kosti einn fjölmiðil sem á engan hátt þarf að gæta neinna annarra hagsmuna en þeirra að stuðla að upplýstri umræðu með hlutlægum hætti.

Hér undir fellur einnig skylda Ríkisútvarpsins til að kynna með vönduðum og hlutlægum hætti framboð og stefnu stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga og sama gildir einnig um forsetakjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og fleira þess háttar. Ein af forsendum virks lýðræðis er að fólki gefist færi á að kynna sér sjónarmið framboða, frambjóðenda o.s.frv. með tilstuðlan óháðra aðila, en ekki einungis í gegnum miðlun sem er greitt fyrir eins og til að mynda með auglýsingum.

Með frumvarpi þessu er einnig mælt fyrir innri starfsemi Ríkisútvarpsins til að efla lýðræðislega starfshætti þess, enda gefin sú forsenda að opinbert félag sem á að gegna veigamiklu hlutverki við að efla og viðhalda lýðræði í landinu verði að starfa með lýðræðislegum hætti. Í því felst eðlileg dreifing ábyrgðar og víðtækt samráð um dagskrá með aðkomu starfsmanna og notenda.

Menningarhlutverk Ríkisútvarpsins snýr einkum að rækt við íslenska tungu, menningu þjóðarinnar, listir, íþróttir og því að vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð. Hér er megininntakið annars vegar að koma til móts við eðlilegar óskir almennings um íslenskt efni og hins vegar að styðja við framleiðslu á slíku efni, listsköpun og störf listamanna.

Með ákvæðum frumvarpsins um starfshætti er staðfest að vönduð vinnubrögð séu óaðskiljanlegur hluti af fjölmiðlun í almannaþágu en þau fela meðal annars í sér að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð og leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast. Hjá nágrannaþjóðum okkar er þessi krafa mjög rík og virk í almennri umræðu um fjölmiðla. Í Svíþjóð er talað um sérstaka hlutlægniskröfu sem þýðir í raun að allar staðhæfingar og upplýsingar sem fjölmiðillinn framreiðir séu réttar og allar nauðsynlegar upplýsingar komi fram.

Eins og ég nefndi áðan hefur tilhögun á fjárhagsumhverfi Ríkisútvarpsins verið endurmetin. Það er talið mikilvægt að Ríkisútvarpið hafi vel skilgreindan tekjustofn og að því verði tryggð fjárveiting samkvæmt áætlaðri innheimtu útvarpsgjalds, eins og upphaflega ætlunin var þegar þessu var breytt. Því er einnig mikilvægt að tekjustofn Ríkisútvarpsins sé skýr, fyrirsjáanlegur og samsvari innheimtu útvarpsgjaldsins til að það geti gert raunhæfar fjárhagsáætlanir til lengri tíma. Fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins er mikilvæg forsenda fyrir sjálfstæði þess gagnvart hinu pólitíska og efnahagslega valdi. Verði sjálfstæði Ríkisútvarpsins ekki tryggt er vegið að getu þess til að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu sem á að vera fær um að veita nauðsynlegt aðhald, vera vettvangur skoðanaskipta og vera í aðstöðu til að geta sett á dagskrá málefni sem stjórnvöldum eða fyrirtækjum mislíkar. Miðað við þessar forsendur er það eitt af markmiðum frumvarpsins að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart hinu pólitíska valdi.

Við útfærslu á útvarpsgjaldinu er lagt til að horft verði til upphaflegs fyrirkomulags þess í lögum frá 2007. Í samræmi við þessa breytingu er lagt til að frá og með janúar 2014 verði tekjustofnar Ríkisútvarpsins eftirfarandi:

1. Sérstakt gjald sem lagt verður á einstaklinga og lögaðila.

2. Rekstrarafgangur vegna starfsemi sem fellur undir 4. gr. frumvarpsins.

3. Tekjur af þjónustu sem fellur undir 3. gr. frumvarpsins, samanber 14. gr.

4. Aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.

Í þeim tilgangi að tryggja stöðugleika í rekstri og sjálfstæði Ríkisútvarpsins er mælt fyrir um að tekjur þess samkvæmt 1. tölulið hér að framan verði gerðar fyrirsjáanlegar og skulu þær ákvarðaðar með sérstöku gjaldi sem ríkisskattstjóri leggur á samhliða álagningu opinberra gjalda samkvæmt 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldið lýtur sömu lögmálum og sérstakt gjald sem lagt er á samkvæmt lögum um málefni aldraðra til tekjuöflunar fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra. Tekjutenging gjaldsins þýðir að tekjulausir eða tekjulágir einstaklingar greiða ekkert gjald, samanber lög nr. 125/1999.

Ríkisútvarpinu eru tryggðar mánaðarlegar tekjur af gjaldinu samkvæmt áætlaðri innheimtu þess. Með þessu fyrirkomulagi er fjárhagsumhverfi Ríkisútvarpsins fært aftur til sama horfs og gilti upphaflega samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir breytingu þess með lögum nr. 174/2008.

Ljóst er að þetta er að sjálfsögðu umdeilt og margir sjá ekki nauðsyn þess að Ríkisútvarpið umfram aðra hafi markaðar tekjur. Þessi sjónarmið má greina í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins eins og bent hefur verið á.

Eftir að hafa legið yfir þessum málum og skoðað mjög vel umhverfi til að mynda ríkisfjölmiðla eða almannaþjónustumiðla á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu er þetta talið vera einn af mikilvægustu þáttunum til að tryggja það sjálfstæði sem ég nefndi hér áðan. Þar er talið í raun að sérstakar aðstæður gildi þegar um er að ræða fjölmiðla, sem við gjarnan köllum fjórða valdið í þessu tilfelli, þar sem mjög mikilvægt er að tryggja þessa fjarlægð, til að tryggja gagnrýni á lýðræðislega umræðu.

Við höfum séð að breytingar voru gerðar í Finnlandi þar sem farið var út úr því að tekjustofninn væri markaður og eftir reynsluna sem kom af því hafa Finnar nú ákveðið að snúa til baka. Ég held að það sé tímabært að við gerum það líka.

Ég vík þá aðeins að skipan og hlutverki stjórnar. Meðal tillagna starfshópsins sem ég nefndi áðan var að skipan og hlutverk stjórnar væri tekin til athugunar. Í frumvarpinu er orðið við hvoru tveggja, einkum hvað varðar skipan og fyrirkomulag við val á stjórn Ríkisútvarpsins. Hópurinn sem samdi frumvarpið fór þar ansi vel yfir mál til að mynda annars staðar á Norðurlöndum. Ég átti fund líka þessu tengt með fulltrúum frá NRK, enda hefur talsvert verið litið til umhverfis norska Ríkisútvarpsins, bæði í þeim breytingum sem voru gerðar 2007 og við samningu þessa frumvarps. Niðurstaðan varð sú að gert er ráð fyrir því að ráðherra menningarmála tilnefni einn fulltrúa sem verði formaður stjórnar, starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni einn fulltrúa í stjórn, en aðrir stjórnarmenn, fimm að tölu, verði tilnefndir af svokallaðri valnefnd sem skipuð verði fulltrúum Alþingis, Bandalags íslenskra listamanna og samstarfsnefnd háskólastigsins. Ætlunin með þessu er að ná því fram að stjórnina skipi fólk með breiðan bakgrunn, þ.e. við tryggjum góða samsetningu á stjórn og að þar veljist inn fólk sem hafi fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem varða rekstur og svo starfsemi Ríkisútvarpsins og ekki síst meginmarkmiðum Ríkisútvarpsins.

Þetta er ekki sama fyrirkomulag og viðhaft er í Noregi. Þar skipar ráðherrann í raun og veru alla stjórnarmenn en hefur um það samráð sem er ekki lögbundið. En mikilvægasta markmiðið sem ætlunin er að ná hér fram er að í stjórnina skipist einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn sem saman búi yfir þekkingu á þeim markmiðum og þeirri starfsemi sem við ætlum að hafa í Ríkisútvarpinu.

Eins og ég hef nefnt einnig er eitt af markmiðum frumvarpsins að draga úr viðskiptalegum sjónarmiðum í rekstri og starfsemi Ríkisútvarpsins. Til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins gagnvart viðskiptalegum sjónarmiðum er lagt til að stofnað verði sérstakt dótturfélag um þá starfsemi Ríkisútvarpsins sem fellur utan fjölmiðlaþjónustu þess í almannaþágu. Í greinargerð með frumvarpinu, sem hv. þingmenn hafa hjá sér, eru talin upp nokkur dæmi um þá starfsemi sem fari fram í dótturfélagi. Þar ber hæst sölu auglýsinga og kostunarrýmis í dagskrá móðurfélagsins, sala á dagskrárefni og sýningarrétti á eigin framleiðslu, samframleiðsla á efni með erlendum sjónvarpsstöðvum og fyrirtækjum, sala á dagskrárefni til almennings og fleira.

Í nágrannaríkjunum hafa verið stofnuð dótturfélög um slíkan samkeppnisrekstur ríkisfjölmiðla til þess að auðvelda fjárhagslega og ritstjórnarlega aðgreiningu milli útvarpsþjónustu í almannaþágu og samkeppnisrekstrar og má sem dæmi um slíkt nefna dótturfélag NRK, Aktivum sem er rekið af NRK, í Noregi og BBC Worldwide sem er rekið af BBC í Bretlandi.

Með því að birta verðskrár og tryggja jafnræði allra viðskiptavina er komið í veg fyrir óeðlilega viðskiptahætti og síðast en ekki síst eru settar takmarkanir á lengd auglýsingatíma og auglýsingar í miðjum dagskrárliðum.

Staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði hefur eins og hv. þingmönnum er vel kunnugt verið ágreiningsefni um árabil og hefur sitt sýnst hverjum og má segja að sá ágreiningur hafi gengið þvert á flokka. Með þessu er reynt að koma til móts við þau sjónarmið að draga eigi úr þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég held að ekki sé ágreiningur um það að ríkið er ekki í aðstöðu til þess að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins að fullu leyti, þó að það væri auðvitað hægt að ímynda sér leiðir þar sem við mundum hækka útvarpsgjald verulega til þess að bæta Ríkisútvarpinu það tekjutap sem það yrði fyrir ef það færi algjörlega út af auglýsingamarkaði, og aukinheldur eru auðvitað skiptar skoðanir um þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði þar sem ýmsir hafa bent á að sé mikilvægt að Ríkisútvarpið sé ekki aðeins í beinu sambandi við fólkið í landinu, heldur líka við atvinnulífið og þannig sé þetta mikilvægur snertiflötur Ríkisútvarpsins við þann geira. Ég tel að þessi málamiðlun sem hér er kynnt komi til móts við ólík sjónarmið í þessu máli að svo miklu leyti sem unnt er.

Á þeim fimm árum sem liðin eru frá gildistöku laga um Ríkisútvarpið ohf. frá árinu 2007 hafa komið í ljós nokkrir annmarkar á framkvæmd þeirra sem tengjast framkvæmd viðmiðunarreglna ESA um ríkisaðstoð til útvarpsþjónustu í almannaþágu og hefur ESA komið á framfæri við stjórnvöld ábendingum þar að lútandi. Meðal þeirra ráðstafana sem ESA hefur lagt til að verði gerðar af hálfu íslenskra stjórnvalda er að nánar verði skýrt hvernig ákvarðanir um nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu verði teknar.

Þá leggur ESA til að sett verði leiðbeinandi viðmið fyrir gjaldskrár vegna þjónustu sem Ríkisútvarpið veitir gegn gjaldi og telst vera hluti af fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, t.d. afritun efnis fyrir einstaklinga. Þá telur ESA að setja verði skýrar reglur um meðferð hugsanlegrar ofgreiðslu til Ríkisútvarpsins. Jafnframt hefur ESA lagt til að skilið verði á milli fjölmiðlaþjónustu í almannaþjónustu og annarrar starfsemi. Því til samræmis er gerð krafa um fullkominn aðskilnað í bókhaldi vegna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annars rekstrar. Af framangreindu leiðir meðal annars að nauðsynlegt er að almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins verði afmarkað með mun nákvæmari hætti en gert er í gildandi lögum. Þessum kröfum er mætt í frumvarpinu með ýmsum hætti.

Í 16. gr. er kveðið á um hvernig skuli staðið að ákvörðun um nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, samanber 3. gr. frumvarpsins. Ég hef þegar greint frá nýrri og nákvæmari skilgreiningu á fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu sem og stofnun hins sérstaka dótturfélags sem kemur til móts við kröfu um fjárhagslegan aðskilnað. Í þessu sambandi vil ég taka fram að ég tel mjög brýnt að þetta frumvarp nái fram að ganga sem fyrst, því að með ákvörðun sinni frá 9. febrúar 2011 lagði ESA formlega til við íslensk stjórnvöld að þau breyttu fyrirkomulagi á fjármögnun Ríkisútvarpsins til samræmis við viðmiðunarreglur ESA um ríkisstyrki til fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu sem samþykktar voru árið 2010. Fresturinn sem ESA gaf til að orðið yrði við þeim tilmælum rann út á sama degi held ég og frumvarpinu var dreift hér í þinginu og búast má við að stofnunin hafi ýmislegt við það að athuga ef þessu verður ekki breytt á þessu þingi.

Hæstv. forseti. Ég hef hér að framan greint frá nokkrum helstu atriðum þessa frumvarps sem eru meginlínurnar, en ég tel eigi að síður ástæðu til að vekja athygli á nokkrum atriðum til viðbótar sem ætlað er að skapa betri grunn fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.

Í fyrsta lagi er mælt fyrir um aukið aðgengi sjón- og heyrnarskertra að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Til að mynda er gert ráð fyrir sérstökum aðgerðum til að gera heyrnarlausum fært að fylgjast með tilkynningum um og lýsingum á atburðum sem hugsanlega ógna öryggi almennings, t.d. náttúruhamförum.

Í öðru lagi er lagt til að umsjón með eignarhluta ríkisins í Ríkisútvarpinu færist frá fjármálaráðherra til mennta- og menningarmálaráðherra. Með því er lagt til að eignarhald Ríkisútvarpsins færist aftur til þess ráðherra sem að öllu jöfnu ber ábyrgð á fjölmiðlalögum, samanber 1. lið 6. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands frá árinu 2011.

Til þessa er vísað í umsögn fjárlagaskrifstofu. En ég hef lagt á það mikla áherslu eftir þá reynslu sem komin er að Ríkisútvarpið sé, ólíkt þeim opinberu fyrirtækjum sem við eigum þar sem hlutabréfin liggja hjá fjármálaráðherra, þrátt fyrir að vera opinbert hlutafélag, og því er ekki lagt til að breyta, líka grundvallarmenningarstofnun. Það stendur ekki til að selja Ríkisútvarpið. Það hefur verið tekið fram í lögum frá 2007 og hér, þannig að ég held að þessi varðveisla hlutabréfsins sé réttmæt af þessum sökum.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um sérstaka vernd í starfi fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn. Ég vísa þar til 12. gr. frumvarpsins. Það hefur verið rætt í sölum þingsins þegar upp hafa komið umdeild mál þar sem fréttamönnum og dagskrárgerðarmönnum hefur verið sagt upp að þetta þyrfti að skoða sérstaklega í nýju frumvarpi. Við því er brugðist með þessu.

Í fjórða lagi er lagt til að Ríkisútvarpið taki upp innra gæðaeftirlit, meðal annars er mælt fyrir um að setja reglur um meðferð athugasemda og kvartana sem berast frá almenningi.

Í fimmta lagi er ráðgert að mat á frammistöðu Ríkisútvarpsins á sviði fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu verði í höndum fjölmiðlanefndar, enda nauðsynlegt að óháður eftirlitsaðili leggi mat á það hvort Ríkisútvarpið veiti í raun þá fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins.

Hæstv. forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu en stuttlega að lokum er markmiðið að skapa Ríkisútvarpinu lagalega umgjörð með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur á lögum nr. 6/2007 og bregðast við athugasemdum ESA. Ráðgert er að festa í sessi ákvörðun íslenskra stjórnvalda um hvað felist í fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og skapa þar með traustari starfsgrundvöll fyrir Ríkisútvarpið. Að auki er það markmið frumvarpsins að gera Ríkisútvarpinu kleift að styrkja enn frekar starfsemi sína á þeim sviðum þar sem það skarar fram úr og hefur skapað því traust á meðal þjóðarinnar og markmiðið er að efla lýðræðislega starfshætti, ábyrgðardreifingu og þátttöku starfsmanna auk notenda við mótun dagskrárstefnu og dagskrárval enda er það órjúfanlegur hluti af lýðræðishlutverkinu. Nýtt fyrirkomulag við skipan stjórnar tel ég einnig endurspegla þetta hlutverk.

Ákvæði um eftirlit með því hvernig Ríkisútvarpið stendur að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu er annars vegar að koma til móts við kröfur ESA í því efni og hins vegar að leggja áherslu á að stjórnvöldum ber að fylgja því eftir að starfað sé í samræmi við lög og markmið með fjölmiðlun í almannaþágu. Það er mitt mat að þessum markmiðum verði náð með samþykkt frumvarpsins.

Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði frumvarpinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.