140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hæstv. ráðherra vék að því í svari sínu að ég væri sennilega að spyrja um afstöðu hæstv. fjármálaráðherra vegna umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Svo er ekki, það er vegna þess að í skýrslu fjárlaganefndar sem öll nefndin stóð að var einmitt tekið á því hvernig breyta þyrfti tekjustofnum um markaðar tekjur. Það vill svo til að ég sit í hv. fjárlaganefnd og það er verið að vinna frumvarp í fjármálaráðuneytinu til að breyta þeim hlutum sem hér er verið að setja í lög og það er gert í samvinnu við hv. fjárlaganefnd.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ef þetta er með þessum hætti finnst mér að verið sé að róa í að minnsta kosti tvær áttir þegar menn gera sér grein fyrir því að í ábyrgri fjármálastjórn þurfi að gera þetta svona, og þegar unnið er að því og þverpólitísk samstaða er í hv. fjárlaganefnd þingsins skuli vera unnið með mismunandi (Forseti hringir.) aðferðum í ráðuneytunum. Það var þess vegna sem ég kallaði eftir afstöðu hæstv. fjármálaráðherra.