140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari síðari fyrirspurn hv. þingmanns fyrst stendur ekki til að gera breytingar á því almenna fyrirkomulagi að áfram verði gerður þjónustusamningur, samningur um útvarpsþjónustu í almannaþágu, og hann verði gerður milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins.

Hvað varðar skerta tekjumöguleika Ríkisútvarpsins er væntanlega vísað til takmarkana á auglýsingamarkaði og að sjálfsögðu er líka með auknum aðskilnaði á fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og síðan annarri starfsemi verið að skýra línur. Ég sé hins vegar ekki fram á, miðað við hvernig slíkt fyrirkomulag hefur reynst í Noregi og Bretlandi, að það hafi endilega skert tekjur viðkomandi ríkisfjölmiðla en það hefur hins vegar skýrt það mjög hvernig nákvæmlega þær sértekjur skiptast og hvernig þær koma inn. Ég kann í raun og veru ekki frekari skýringar á þessari niðurstöðu fjárlagaskrifstofu.