140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra kom fram að brýnt væri að klára þetta mál, ekki síst vegna athugasemda frá ESA. Það vakti líka athygli mína að frumvarpið var, samkvæmt því sem fram kom í máli ráðherrans, lagt fram sama dag og frestur Eftirlitsstofnunarinnar rann út þannig að ég álykta sem svo að sá frestur sé ekki greyptur í stein.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þeirra gríðarlegu athugasemda sem, án þess að búið sé að senda málið til umsagnar, koma fram í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu sjálfu: Telur hún virkilega raunhæft að ljúka þessu máli á vorþinginu þar sem nú eru um það bil 16 þingdagar eftir og einn mánuður til stefnu og eftir er að senda málið til umsagnar og fjalla um það á vettvangi hv. menntamálanefndar?