140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hlýt að spyrja í framhaldi af því: Hvers vegna kom frumvarpið ekki fram fyrr? Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að frumvarpið hefur hlotið mikla efnismeðferð en það er samt algjörlega skýrt og það mun væntanlega koma fram í umræðunni að jafnvel þó að mikil efnisleg meðferð hafi farið fram um málið er ekki samkomulag um mörg atriði þess og það á eftir að útkljá það.

Ég verð að segja að það vakti furðu mína í andsvari hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um hvort hæstv. fjármálaráðherra hefði ekki gert athugasemdir við afgreiðslu frumvarpsins í ljósi umsagna fjárlagaskrifstofunnar, sérstaklega þar sem hv. þingmaður upplýsti hér að þverpólitísk vinna færi nú fram á vegum hv. fjárlaganefndar. Ef mig misminnir ekki var núverandi hæstv. fjármálaráðherra einmitt formaður fjárlaganefndarinnar sem setti þá vinnu af stað. Hvernig fer þetta saman, hæstv. ráðherra?