140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fullkomlega óskiljanlegt eftir allan þennan tíma að við séum að velta því fyrir okkur hver auglýsingatíminn er. Það hlýtur að liggja fyrir. Og af hverju í ósköpunum er eingöngu verið að spyrja RÚV að því? Af hverju mæla menn það bara ekki?

Ég vek athygli á því að hvað eftir annað kemur í ljós að mjög lítil hlutlægni er í fréttum og fréttaskýringum hjá RÚV. Meðal annars er búið að mæla með einföldum hætti hverjir viðmælendur eru og annað slíkt. Það er ekkert gert með það. Eru einhverjar líkur á því að það breytist ef þetta frumvarp verður að veruleika?

Ég spyr aftur: Hvað má RÚV ekki gera? Ef maður fer í gegnum lýsinguna hér má RÚV gera allt. Það segir sig sjálft að þegar auglýsingatími er að meðaltali 3,7 mínútur þá er engin takmörkun fólgin í því að fara úr 12 mínútum í 8 mínútur í einhverjum texta í lögunum. Miðað við mælingar er auglýsingatíminn 5,2 mínútur, nær ekki einu sinni upp í 8 mínútur í desember.

En stóra einstaka spurningin er: Hvað má RÚV ekki gera? Og hvernig ætlum við að sjá til þess að þar séu hlutlægar fréttir og fréttaskýringar og stjórnmálaumræður?