140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[11:53]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra þarf að fara í burtu á meðan ég flyt ræðu mína og geri ekki athugasemdir við það. Ég vil engu að síður varpa til hennar spurningu í upphafi og hún tengist skipun þeirrar nefndar sem vann að frumvarpinu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þáverandi deildarstjóri fjölmiðladeildar mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem síðar varð formaður fjölmiðlanefndar, hafi setið allan tímann, líka eftir að hann var skipaður framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, hvort hann hafi setið í nefndinni þrátt fyrir það. Ef svo er þykir mér það harla einkennilegt að sá sem á að fylgja eftir lögum um fjölmiðla almennt og stýrir fjölmiðlanefnd skuli jafnframt sitja í nefndinni. Ég óska því eftir að hæstv. ráðherra veiti upplýsingar um það.

Ég er ekki með þessu, virðulegi forseti, að varpa rýrð á nokkurn hátt á þann frábæra einstakling sem gegnir því embætti, heldur er ég að velta fyrir mér hagsmunaárekstrum sem hugsanlega gætu orðið.

Hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Það er vel í sjálfu sér að mæla fyrir slíku frumvarpi. Þetta eru breytingar á lögum um Ríkisútvarpið. Mig langar fyrst og síðast að gera að umræðuefni, af því að þetta er fjölmiðill í almannaþágu, af hverju ekki er betur skilgreint og það með óyggjandi hætti hvað fjölmiðill í almannaþágu er. Hvert er hlutverk fjölmiðils í almannaþágu? Hvaða hlutverki á hann í raun að gegna?

Virðulegur forseti. Ríkisútvarpið ohf. er á fjárlögum, fær gjald sem innheimt er af öllum einstaklingum 16 ára og eldri, einstaklingum sem lögaðilum, sem á síðan að renna beint í rekstur Ríkisútvarpsins, samkvæmt frumvarpinu. Við hljótum því að þurfa að fá meiri og betri skýringar. Ég tel ekki að í greinargerð með frumvarpinu sé með óyggjandi hætti sett fram hvað fjölmiðill í almannaþágu er, hvað þessi ríkisfjölmiðill í almannaþágu á að gera og hvað hann á ekki að gera.

Ég vil taka undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem segir að verið sé að heimila Ríkisútvarpinu að gera nánast allt. Það er hins vegar sett í þann búning að erfitt er að henda reiður á hvað má ekki. Mér þykir vanta betri skilgreiningu á því hvað fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu er.

Ég held líka að beintengja þurfi fjárframlag frá ríkinu við fjölmiðil í almannaþágu, að öllu öðru sem Ríkisútvarpinu er heimilt að gera samkvæmt frumvarpinu sé haldið fyrir utan þann rekstur og það sé algjörlega klárt og kvitt í hvað það fjármagn sem innheimt er af íbúum þessa lands, 16 ára og eldri, rennur hjá fjölmiðli í almannaþágu, fjölmiðli sem á að veita fólkinu í landinu þessa þjónustu. Það er í mínum huga ekki skýrt.

Ég ætla þá að hverfa frá 1. gr., eða markmiðinu, og fara í 2. gr. þar sem talað er um eignarhald og samning um fjölmiðlun í almannaþágu. Þar er tekið fram að Ríkisútvarpið sé sjálfstætt opinbert hlutafélag, og það er fínt. Og sameining við önnur félög eða slit eru óheimil. Hins vegar er tekið fram að til að rækta hlutverk sitt, samkvæmt þessum lögum, sé Ríkisútvarpinu heimilt að eiga og leigja hvers konar búnað og eignir. Það er í lagi vegna þess að búnaðinn þarf Ríkisútvarpið að hafa til að veita þá þjónustu sem því ber samkvæmt lögum þessum. Hins vegar er kveðið á um það í 2. gr. að þar á meðal séu dótturfélög, fasteignir og tæknibúnaður. Ég set stórt spurningarmerki við orðið dótturfélag, frú forseti.

Í mínum huga er það óásættanlegt að Ríkisútvarpinu eigi að vera heimilt að stofna dótturfélög sem væntanlega munu með einum eða öðrum hætti fara í beina samkeppni við aðra fjölmiðla í landinu. Það verður að skilja á milli fjölmiðils í almannaþágu og hins þáttarins sem hér er verið að gefa undir fótinn, að stofna megi dótturfélög og þar af leiðandi nýja fjölmiðlaveitu í almannaþágu sem megi reka í allt að 24 mánuði til að kanna hvort hún þjónar því hlutverki sem henni ber að gera, og er þar af leiðandi í gallharðri samkeppni við aðra fjölmiðla í landinu.

Með fullri virðingu fyrir Ríkisútvarpinu, virðulegur forseti, þá erum við fámenn þjóð. Sú staða sem hér virðist vera að koma upp og vera heimiluð mun að mínu mati rýra mjög tækifæri annarra frjálsra fjölmiðla á markaði í samkeppni við Ríkisútvarpið og dótturfélög þess. Yfirburðir Ríkisútvarpsins eru slíkir. Ríkisútvarpið er fjármagnað af skattpeningum þjóðarinnar og þá þarf að skilgreina nákvæmlega hvað er á ferð.

Við getum tengt þetta 4. gr., virðulegur forseti, vegna þess að Ríkisútvarpið skal — það er ekki eins og því sé það heimilt, heldur skal það — stofna og reka dótturfélög, sem að fullu leyti eru í eigu þess, fyrir aðra starfsemi en þá sem kveðið er á um í 3. gr. Hvert stefnum við, virðulegur forseti, í fjölmiðlun á Íslandi?

Við setningu fjölmiðlalaga á síðasta þingi voru margir ósáttir við að lög um Ríkisútvarpið væru ekki tekin samhliða. Hér fáum við nú á síðustu dögum þingsins til umræðu frumvarp um Ríkisútvarpið sem gefur Ríkisútvarpinu, eftir því sem maður les og túlkar frumvarpið, mjög víðtækar heimildir í allar áttir. Var það það sem við ætluðum inn í þegar fjölmiðlalögin voru sett? Var það þess vegna sem lög um Ríkisútvarpið voru ekki tekin þar með? Var það vegna þess að veita átti þessari ríkisstofnun — sem hún er, hún er ekkert annað en ríkisstofnun — önnur og meiri tækifæri til útþenslu?

Í 4. gr. kemur fram að dótturfélögin eigi að vinna samkvæmt samkeppnislögum en þar stendur engu að síður, með leyfi forseta:

„Tilgangur dótturfélaga Ríkisútvarpsins er að styðja við starfsemi móðurfélagsins með því að nýta tæknibúnað, dreifikerfi, sérþekkingu starfsmanna og aðstöðu Ríkisútvarpsins til annarrar starfsemi en þeirrar sem fellur undir 3. gr. Innan starfsemi dótturfélaga fellur meðal annars að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar áður framleiddu efni í eigu Ríkisútvarpsins. Einnig að selja birtingarrétt að efni Ríkisútvarpsins og að framleiða og selja vörur sem tengjast framleiðslu Ríkisútvarpsins á efni sem fellur undir 3. gr. Dótturfélagi er heimilt að semja við önnur fyrirtæki um framangreind verkefni.“

Það kann að vera, virðulegur forseti, að ég sé að oftúlka eða mistúlka, en mér þykir að með þessu sé verið að færa út starfsemi Ríkisútvarpsins í átt að því sem hinn frjálsi fjölmiðill er að vinna að annars staðar í samfélaginu. Og það getum við, að minnsta kosti mörg okkar, ekki sætt okkur við.

Í 7. gr. er rætt um viðskiptaboð og talað um að auglýsingar eigi að vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni Ríkisútvarpsins. Ég hef, virðulegur forseti, veitt því athygli núna í hátt í ár að ýmsir þættir í Ríkisútvarpinu, ýmsir sérþættir, afþreyingarþættir, eru kostaðir af bílafyrirtæki hér á landi. Það fer stundum eftir lengd þáttarins, og hugsanlega gæðum, hvort lítill bíll frá því fyrirtæki eða stór birtist í lok sýningar. Þarna nýtir Ríkisútvarpið sér ákveðna kostun, setur inn auglýsingu frá þessu fyrirtæki, á litlum og stórum bílum eftir því hvert efni afþreyingarinnar var, og fær án efa greitt fyrir. Þannig er hægt að fara fram hjá reglunum með einum eða öðrum hætti. Ég held að þetta þurfi að skoða. Við erum ekki fjölmenn þjóð. Við erum fámenn þjóð og Ríkisútvarpið má ekki undir nokkrum kringumstæðum aftur verða einokunaraðili á markaði þannig að þjóðin búi við Ríkisútvarpið eitt og sér og aðrir fjölmiðlar leggi upp laupana vegna þess að verið er að sníða Ríkisútvarpinu svo víðan stakk, en ekki þröngan.

Mér finnst líka, virðulegur forseti, að skoða þurfi tekjur Ríkisútvarpsins og þá tekjustofninn. Það er ljóst í því árferði sem ríkt hefur undanfarið að ekki hafa allir greitt þennan skatt, einfaldlega vegna þess að tekjurnar leyfa það ekki. Það greiða ekki allir þennan skatt og það er í sjálfu sér allt í lagi af minni hálfu. Vonandi árar betur og vonandi vænkast hagur þjóðarinnar og þar með fólksins í landinu. Hvað þá? Verður þá ómælt útvarpsgjald eða nefskattur sem rennur til Ríkisútvarpsins? Eða hvað ætlum við að skoða þar?

Ég hef líka, virðulegur forseti, velt því fyrir mér hvort samhliða eigi að skatta lögaðila. Einstaklingar sem eru lögaðilar greiða útvarpsskattinn sem einstaklingar, 16 ára og eldri, og síðan eru þeir aftur skattaðir sem lögaðilar. Mér finnst að það megi verulega skoða hvort það er réttlátt.

Virðulegur forseti. Í 16. gr. er rætt um mat á nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu þar sem Ríkisútvarpið skal óska eftir heimild ráðherra fyrir nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu samkvæmt 3. gr. ef áætlað er að hún muni kosta meira en sem nemur 10% af innheimtu útvarpsgjaldi. Samt sem áður kemur fram í kostnaðargreiningu að Ríkisútvarpið áætli að þær tæknilegu breytingar sem ætlunin er að fara út í vegna sjónskertra — og ég geri ekki athugasemdir við það — og önnur útgjöld sem tengjast aðgreiningu á rekstri með tilkomu dótturfélaga muni hafa í för með sér viðbótarkostnað sem einnig getur numið tugum milljóna króna. Hvert erum við komin? Hvert erum við komin með þetta frumvarp?

Að lokum, virðulegur forseti, vil ég segja: Það sem er brýnast að gera við þetta frumvarp er að skilgreina 1. gr., markmiðið, hvað fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu er. Sú skilgreining þarf að vera með óyggjandi hætti þannig að ekki fari á milli mála hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er hvað það varðar. Aðra þætti og útþenslu sem felst í þessu frumvarpi til handa Ríkisútvarpinu ohf. tel ég að við þurfum að skoða miklu betur. Mér finnst það ganga æðinærri hinum frjálsa fjölmiðli í landinu að Ríkisútvarpið skuli í lögum vera á þessari leið.