140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[12:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin og líka í rauninni raunsæja nálgun á fyrri spurningu mína varðandi afgreiðslu málsins á þingi. Ég fór kannski ekki alveg rétt með áðan, ég held að frumvarp um RÚV hafi einu sinni verið lagt fram að vori en þá var reyndar sérstaklega tekið fram að það væri lagt fram til kynningar til að undirbúa vinnu þingsins haustið eftir.

Ég held að það sé eðlilegt að nálgast þetta með þessum hætti. Við munum fara vel yfir allar athugasemdir varðandi þetta umfangsmikla frumvarp og síðan sjáum við hvað setur. Allt verðum við að gera í þágu þess að við höfum þó það sameiginlega markmið að hafa útvarp í almannaeigu sem starfrækir þetta þjónustuhlutverk.

Síðan vona ég að túlkun hv. þingmanns sé rétt varðandi auglýsingar á vefnum, því að þegar ég les frumvarpið yfir og greinargerðina með frumvarpinu sé ég ekki þessar takmarkanir. Það var sérstaklega tekið fram í síðasta frumvarpi, sem síðan varð að lögum, að Ríkisútvarpið hefur enga heimild til að fara inn á vefinn, það eru engar auglýsingar leyfðar á vefnum. En það er áherslubreyting núna, Ríkisútvarpinu er heimilað að fara, hvort menn kalla það stórtækt eða ekki en alla vega fyrsta skrefið, inn á markaðinn sem tengist vefnum einmitt á því sviði þar sem við sjáum þá fjölbreytni í fjölmiðlun sem við óskum eftir. Í því erfiða árferði sem er í dag er fjölmiðlunin fjölbreyttust þar.

Þess vegna vara ég eindregið við því að hleypa Ríkisútvarpinu inn á þennan samkeppnismarkað sem vefmiðlun er. Það er eðlilegt að Ríkisútvarpið, og það er hluti af almannaþjónustu þess, haldi uppi öflugum vefmiðli og hann er alltaf að batna. Útlitið og svo ég sletti „layout-ið“ á vefnum hefur breyst mjög til batnaðar. Það er hluti af almannaþjónustu Ríkisútvarpsins að miðla fréttum á vefnum en ég tel ekki rétt að Ríkisútvarpið stígi þetta skref og fari með þessum stórtæka hætti inn á auglýsingamarkaðinn á vefnum.