140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[12:37]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna strax að þetta er grein sem ég rak einmitt augun í og spurði mig sumra af þeim spurningum sem hv. þingmaður færði fram. Mér finnst þetta ekki vera beinlínis í samhengi við önnur ákvæði frumvarpsins og tel fullt tilefni fyrir allsherjar- og menntamálanefnd að fara vel í gegnum tilganginn í raun og veru með þessari grein, hvort þetta sé akademísk æfing eða hvort þarna liggi að baki einhver áform stofnunarinnar um útbreiðslu á þessum markaði. Þarna koma upp ýmsar fleiri spurningar, t.d. hvort eðlilegt sé að verja peningum sem koma beint í gegnum útvarpsgjaldið frá almenningi og fyrirtækjum í landinu í tilraunastarfsemi af þessu tagi og hvort engin mörk séu á því hversu umfangsmikil hún geti verið.

Þannig að þessi grein kallar í raun á allmargar spurningar sem ég tel að við þurfum að fara vel yfir í nefndinni. Staðan er auðvitað þannig að við erum með veikburða fjölmiðlamarkað og við höfum ríkum skyldum að gegna sem fulltrúar almannavaldsins að reyna að tryggja í fyrsta lagi að það sé öflugt ríkisútvarp í landinu, af ástæðum sem ég og fleiri hafa rakið hér í umræðunni, en ekki síður að þeir einkaaðilar á markaði sem fyrir eru og aðrir sem kunna að hafa áhuga á að hefja starfsemi hér geti vel þrifist. Það er ekki eingöngu þörf fyrir öflugt ríkisútvarp, það er líka þörf fyrir að hér heyrist margar raddir á fjölmiðlamarkaði með mismunandi sjónarmið sem almenningur getur síðan tekið afstöðu til.