140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[14:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að óhætt sé að segja að frumvarp um Ríkisútvarpið sé efni sem flestir hafa einhverja skoðun á, a.m.k. hafa flestir skoðanir á því hvert hlutverk Ríkisútvarpsins eigi að vera. Því er svolítið sérkennilegt að við séum í þeirri stöðu að skilgreiningin á því hafi aldrei komist almennilega á hreint hvað ríkisútvarp á Íslandi eigi að gera. Ég treysti mér ekki til þess að fara yfir það og útskýra hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er í dag og þrátt fyrir að menn séu búnir að reyna hvað eftir annað að fara yfir það virðist það ekki hafa gengið upp. Ég beið því svolítið spenntur eftir því að sjá í þessu frumvarpi hvert hlutverk Ríkisútvarpsins eigi að vera ef frumvarpið nær fram að ganga.

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr frumvarpinu um efni Ríkisútvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.“

Virðulegi forseti. Er ekki miklu einfaldara að segja að fjölmiðlaefnið skuli bara vera allt sem stjórnendum Ríkisútvarpsins dettur í hug? Er það ekki miklu hreinna? Ég spurði hæstv. ráðherra að því áðan hvað Ríkisútvarpið mætti ekki gera og hæstv. ráðherra var ekki með svar á hraðbergi þá, kannski kemur hæstv. ráðherra í andsvar á eftir og segir okkur hvað Ríkisútvarpið megi ekki gera ef frumvarpið nær fram að ganga en ég hef ekki hugmyndaflug í neitt. Stundum hefur verið kvartað undan því að ég hafi þó nokkuð mikið hugmyndaflug, sérstaklega þegar ég stend í þessum stól, en hvað í ósköpunum gæti verið undanskilið þarna? „Afþreying af ýmsum toga“, ég held að það nái nokkurn veginn yfir allt sem vantaði þarna. Að vísu er ekki tekið fram að það eigi að vera sérstakt efni fyrir aðra aldurshópa en börn og ungmenni en hitt útilokar það alveg örugglega ekki.

Það stendur skýrt að þetta eigi að vera hið minnsta þannig að ef eitthvað hefur dottið hér út, ef finna má eitthvað sem er ekki þarna inni, getur maður vísað til þess; já, en í 3. tölulið er bara sagt „hið minnsta“. Þannig að við getum auðvitað gengið miklu lengra. Ég legg því til að ef menn vilja halda þessu inni segi menn bara að fjölmiðlaefni Ríkisútvarpsins eigi að vera allt sem stjórnendum Ríkisútvarpsins dettur í hug. Ég held að það sé miklu hreinna, það er skýrara en nákvæmlega sama merking. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið skal dreifa efni til alls landsins og næstu miða með a.m.k. tveimur hljóðvarpsdagskrám og einni sjónvarpsdagskrá árið um kring.“

Að minnsta kosti, það eru engin takmörk sett á það. Menn geta þess vegna verið með 10 sjónvarpsrásir og 15 sjónvarpsrásir. Það eru engin takmörk í þessu. Síðan kemur að sjálfsögðu fleira til og áfram segir:

„Enn fremur að birta valda hluta efnis síns, breytta eða óbreytta, ásamt öðru efni í breyttu eða óbreyttu formi með öðrum miðlunarleiðum, þ.m.t. að gera efni aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að efninu og/eða þjónustunni á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs.“

Virðulegi forseti. Ef mönnum fannst ekki nóg að vera með að minnsta kosti tvær útvarpsrásir og eina sjónvarpsdagskrá var það algerlega tryggt í þeim setningum sem á eftir komu að Ríkisútvarpið getur gert allt sem það vill í því að fjölga rásum hjá sér.

Við erum í þeirri stöðu, ef þetta frumvarp nær fram að ganga, að Ríkisútvarpið getur gert allt og fjallað um allt. Það þykir mér afskaplega miður og óskynsamlegt og það er skýrasta leiðin til að drepa þá samkeppni sem er til staðar og rökin fyrir því að það þurfi að hafa svo ofsalega sterkt ríkisútvarp eru að annars gæti einhver vondur einkaaðili orðið svo stór og hann gæti stýrt allri umræðu. Það er hægt að nálgast það með ýmsum hætti en það hefur núverandi ríkisstjórn ekki gert. Í ofanálag er ástæðan fyrir því að litlu fjölmiðlarnir gefast alla jafna upp og sameinast í stærri sú að það er svo erfitt að keppa við þennan ríkisrisa á fjölmiðlamarkaðnum.

En almennt held ég að menn séu á því að mikilvægt sé að hafa þennan ríkisfjölmiðil. Það er ofsalega mikið af fallegum orðum og lýsingum hér, þetta er ofsalega fallegt, börn geta lesið þetta án þess að bera nokkurn skaða af, það er alveg öruggt. Þetta er ekki ólíkt því þegar manni voru kennd kristin fræði á sínum tíma og ekkert að því, en hvernig ætla menn að framkvæma þetta?

Hér er mikið lagt upp úr hlutlægum frétta- og stjórnmálaþáttum og ég vitna beint í frumvarpið:

„Veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar.“ Eru ekki allir sammála þessu? Erum við ekki alveg á þessu?

Á öðrum stað segir, með leyfi forseta:

„Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.“

Jahá. Ég ætla nú að spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að ég hélt að þetta ætti alla vega ekki að vera nýlunda, ég veit ekki hvernig þetta er orðað í núgildandi lögum, en er þetta ekki eitthvað sem við erum öll sammála um? Er einhver á móti því, ef við erum með eitthvað sem er fjármagnað af skattfé og þetta er ríkisfjölmiðill, að þá sé ábyrgst að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð og leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast? Erum við ekki alveg sammála um þetta? Er einhver spurning um það, virðulegi forseti?

Ég spyr vegna þess að það er stundum verið að kanna þetta og það kemur alltaf sama niðurstaðan út úr þessu, þetta er þverbrotið. Ég spurði virðulegan ráðherra: Finnst hæstv. ráðherra ekki vandræðaleg þessi vinstri slagsíða sem er á Ríkisútvarpinu? Það sem er vandræðalegast í þessu, mundi ég ætla, fyrir hæstv. ráðherra er að hennar flokkur sem fékk ágætiskosningu í síðustu kosningum en hefur ekki riðið feitum hesti frá skoðanakönnunum — og ég ætla ekki að fara neitt í það en ef við tökum bara síðustu kosningar þá var hann að minnsta kosti ekki í meiri hluta í þinginu — ef við tökum fréttaskýringaþáttinn, það er bara einn í Ríkisútvarpinu, og skoðum aðgang stjórnmálaflokkanna að Speglinum eftir úttekt, þá var Hreyfingin þar fjórum sinnum, Framsóknarflokkurinn 18 sinnum, Sjálfstæðisflokkurinn 23 sinnum, Samfylkingin 60 sinnum og svo Vinstri grænir 82 sinnum á ákveðnu tímabili þar sem fulltrúar þeirra voru í Speglinum. Aðgangur stjórnarandstöðunnar var 25% af því sem tekið var og ríkisstjórnarinnar 75%.

Við getum líka farið í hinn þáttinn, virðulegi forseti, sem er í sjónvarpinu, það er bara einn pólitískur þáttur þar, og við getum alveg flokkað það eftir stjórnmálaskoðunum. Nákvæmlega sama er uppi á teningnum þar. Ég ætla ekki að lesa það allt upp, þetta hefur allt saman birst í fjölmiðlum, en menn hafa tekið þessu einstaklega illa og allri svona gagnrýni, það er bara blásið á þetta, sagt að þetta sé bara bull eða ég veit ekki hvað, það er nú minnst sagt en að þetta sé bara eitthvað sem engu máli skiptir, virðist vera.

Ég er ekki að mælast til að þetta snúist við þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi endalausan aðgang að þessum þáttum. Ég veit það fyrir víst, ég vann einu sinni með vinstri sinnuðum einstaklingi sem gat hringt inn í Spegilinn þegar hann vildi og fékk þá að komast að. Ég er bara búinn að vera í stjórnmálum í 20 ár og ég held að ég hafi aldrei komið í Spegilinn en það er aukaatriði. Ég hef ekki miklu að tapa, ég get ekki mætt miklu sjaldnar þó svo að stjórnendur þáttarins taki það óstinnt upp að ég taki þetta upp á þessum vettvangi. En það er fullkomið aukaatriði.

Ég held að þetta sé, burt séð frá stjórnmálaskoðunum, mjög vont fyrir þjóðfélagið. Ég hef tekið eftir því þegar ég dvelst erlendis eða fylgist með erlendum fréttaþáttum og -stöðvum, og ég tek stundum Fox-sjónvarpsstöðina bandarísku sem dæmi um eitthvað sem allir eru sammála um að sé hrikalega hlutdrægur fjölmiðill. Ég held að allir séu sammála um að sú stöð sé sú allra lægsta, hún er svo hlutdrægur miðill. Ég held að ég hafi aldrei séð þegar ég hef fylgst með þar og tekið er fyrir ákveðið mál að þar sé ekki fulltrúi beggja sjónarmiða. Ég held að ég hafi aldrei séð það. Það getur vel verið að svo sé en á Íslandi, við sjáum náttúrlega að þetta eru bara stjórnmálamennirnir sem þarna voru teknir en ef við tökum fræðimennina, sem við vitum alveg hvar eru í stjórnmálum, þá eru þeir sem eru til vinstri almennt kallaðir til og lagt upp með að þetta sé fagleg nálgun þegar þeir eru trúnaðarmenn stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna og eru að koma ákveðnum stjórnmálaskoðunum áleiðis. Nú er ég ekki að segja að allt sem þessir fræðimenn eða stjórnmálamenn segja sé vitleysa og eigi ekki heima í fjölmiðlum, alls ekki. Það sem ég er að segja er að ég held að það yrði miklu betri sátt og meiri skynsemi, ég held að umræðan yrði málefnalegri, ég held að hún yrði gagnrýnni ef bæði sjónarmið kæmu fram, eins og stendur hérna. Ég held að það væri miklu betra. Og jafnvel þó að einhver stjórnmálaflokkur, eins og kannski Vinstri grænir, gæti hugsað: Þetta er nú í lagi, við eigum þetta, við erum alltaf þarna inni, hinir komast ekki að, þetta er frábært — ég held að það sé ekki gott, meira að segja ekki fyrir Vinstri græna og örugglega ekki fyrir Ísland. Svo getur þetta einhvern tíma snúist við og þá er þarna einhver annar stjórnmálaflokkur og þá eru Vinstri grænir komnir í aðra stöðu því að þegar þeir höfðu tækifæri til að hafa áhrif á gang mála hlakkaði svo í þeim að geta haft algeran aðgang að þessum ríkisfjölmiðli.

Ég er bara að leggja út frá þessu og ég spyr hæstv. ráðherra hvort henni finnist ekki óþægilegt að svona sé fréttaskýringaþátturinn, með ákveðnum greini, í Ríkisútvarpinu þegar menn mæla það nákvæmlega og það stendur hér fögrum orðum á bls. 3 í frumvarpinu, í 3. gr. — og allir eru sammála um — hverjir starfshættirnir eiga að vera — hvort henni finnist ekki vandræðalegt að svona sé þessu fyrir komið. Þetta er ekki huglægt, þetta er talið og allir geta skoðað þetta. Það er búið að kanna þetta aftur og aftur og allir geta farið yfir þetta.

Síðan kemur fram í 6. tölulið undir menningarlegu hlutverki í 3. gr. að miðla eigi afþreyingar- og menningarefni við hæfi fólks á öllum aldri. Erlent efni skuli vera frá mismunandi menningarheimum og áhersla lögð á norrænt og annað evrópskt efni. Ég ætla svo sem ekki að fara í mikla umræðu um þetta en einhver kynni að segja — ég ætla ekki að nota nein ljót orð — erum við ekki svolítið að gera eitthvað sem við gagnrýnum oft aðra fyrir, að vera þröngsýn í því hvaða efni við viljum hafa? Væri slæmt fyrir Íslendinga að vera víðsýnir og umburðarlyndir og vilja sjá meira en bara það sem er allra næst þeim? Að loksins þegar kemur erlent efni verði Ríkisútvarpið að passa að það sé alveg eins nálægt okkur og mögulegt er? Það væri skelfilegt ef við værum að sjá eitthvað annað en evrópskt og norrænt. Mér finnst þetta kjánalegt og ég skil ekki alveg markmiðið með þessu.

Ég vil spyrja líka út af þessu og það er umhugsunarefni. Við sjáum til dæmis einn stjórnmálaflokk þar sem mér sýnist að allt að því helmingurinn af flokknum og þingmönnunum komi úr fjölmiðlageiranum. Er æskilegt að fjölmiðlavæða stjórnmálin með þessum hætti? Þá vil ég ekki banna fjölmiðlamönnum að fara í stjórnmál, alls ekki, en til dæmis hjá ríkisfjölmiðli eins og BBC eru ákveðnar reglur um það þegar einstaklingar taka þátt í stjórnmálum eða hyggja á framboð og slíkt. Þeir hafa augljóslega algera yfirburði yfir aðra vegna þess að þeir kynna sig auðvitað á þeim vettvangi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé tekið á því — ég finn það ekki í frumvarpinu, — hvort það verði einhverjar reglur um slíka aðila, t.d. reglur eins og eru hjá breska ríkissjónvarpinu, um það hvernig menn hagi sér þegar þeir stíga af vettvangi ríkisfjölmiðils og fara í stjórnmálin. Ég geri ráð fyrir að þær reglur séu settar til að gæta jafnræðis því að allir vita að það er gríðarlega mikil forgjöf sem einstaklingar hafa sem koma úr fjölmiðlaheiminum og fara yfir í stjórnmál. Ég þarf ekki að útskýra það.

Síðan er það, virðulegi forseti, að ekki aðeins getur Ríkisútvarpið gert allt sem það vill, allt mögulegt — nú verður það bara í lögunum — heldur eru hér takmarkanir sem eru náttúrlega fyrst og fremst orðin tóm. Ég er búinn að fá upplýsingar frá tveimur aðilum. Annars vegar var í Fréttablaðinu úttekt 18. febrúar á þessu ári og þar er farið yfir það sem ég nefndi í andsvari áðan, að meðallengd auglýsingahólfa hjá RÚV á kjörtíma í desember mælist 5,2 mínútur. Það er meðaldæmið. Nú getur vel verið að menn geti náð sér í einhverja aðra fleti með því að segja að á ákveðnum tíma fari þetta yfir þessar 8 mínútur. Það getur vel verið að það fari þangað en það er ekki boðlegt að nálgast það með þeim hætti. En alla jafna eru þetta 3,7 mínútur en lengsta auglýsingahólfið fór í 11,7 mínútur milli klukkan 10 og 11 á gamlárskvöld. Mér finnst að ef menn ætla sér að takmarka eitthvað hlut Ríkisútvarpsins eigi þeir ekki að gera það með einhverjum æfingum. Það eru svo sannarlega gríðarlegir möguleikar hjá Ríkisútvarpinu eftir þessa breytingu og það stendur miklu sterkar að vígi og hefur leyfi til að fara inn á öll þau svið sem því dettur í hug. Það getur drepið alla þá samkeppni sem því dettur í hug að drepa með skipulegum hætti og getur auðvitað dreift auglýsingunum þannig að það reyni aldrei á þessar blessuðu 8 mínútur og þó svo menn geti fundið einhverja toppa einhvers staðar þá segir það afskaplega lítið.

Svo eru hlutir eins og kostanir, af því að menn eru að tala um gegnsæi og annað slíkt, finnst mönnum eðlilegt að hafa kostanir í Ríkisútvarpinu? Hvernig gengur það ef menn eru að setja Ríkisútvarpið á hærri stall en aðra fjölmiðla? Þá mundi maður nú ætla að það fyrsta sem menn tækju út væru kostanir. En ég get ekki betur séð en að þær lifi mjög góðu lífi hér. Síðan er líka varðandi þessar mínútur allar, hvað með útvarp? Erum við með þær takmarkanir líka í útvarpi sem þýðir að það skiptir þá auðvitað engu máli?

Virðulegi forseti. Ég hef beint nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra og ég vona að hæstv. ráðherra komi í andsvar og svari einhverjum þeirra.