140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[15:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar einfaldlega að spyrja hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, sem jafnframt á sæti í fjárlaganefnd eins og hér hefur komið fram, hvort það sé ekki réttur skilningur þeirrar sem hér stendur að hverjum þeim skatti sem ríkið leggur á með einum eða öðrum hætti beri að beina inn í ríkissjóð og þaðan úr ríkissjóði til viðkomandi stofnana eða til viðkomandi verkefna.

Ég tek sem dæmi að frumvarp hefur verið til umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd er varðar þjóðskrá, um ákveðin gjöld sem ætlunin er að hækka og leggja á þá sem óska eftir afritum eða beiðni frá þjóðskrá sem síðar ætti að renna til þess að byggja upp tölvukerfi þjóðskrárinnar, á sama hátt og hér er. Er það ekki réttur skilningur að innheimti ríkið skatt, eins og nefskatt, er ferlið það eina rétta að sá skattur renni í ríkissjóð og sé síðan úthlutað af hálfu ríkisins til einstakra verkefna, svo sem eins og til Ríkisútvarpsins? Á sama hátt getum við tekið allan þann skatt og þau vörugjöld sem innheimt eru af bensíni sem ættu þá að renna beint til Vegagerðarinnar. Það væri þá áþekkt ferli og fram kemur í þessu frumvarpi sem ætlunin er að fara í, hvort það sé rétt ferli eða hvort það eigi að vera með þeim hætti að allur skattur fari í ríkissjóð og úr ríkissjóði til viðkomandi stofnana eða viðkomandi verkefna.