140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[15:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að gera athugasemd við fjarveru hæstv. fjármálaráðherra, alla vega hef ég ekki fengið skýringar á því af hverju hún hefur ekki gefið sér tíma til að vera hér í dag. Það var óskað eftir því og sérstaklega óskaði ég eftir því að hæstv. ráðherra yrði hér þegar hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talaði áðan, vegna þess að hann fór yfir atriði sem snerta hæstv. fjármálaráðherra. Mér skilst að hún sé ekki í húsi, þannig að ég vil gera athugasemd við það og vona svo sannarlega …

(Forseti (ÁI): Forseti vill upplýsa að hæstv. ráðherra var í húsi fyrr í dag en af því að umræðan dróst nokkuð á langinn þurfti hún að fara. Hæstv. ráðherra hafði gert ráð fyrir því að reyna að koma hingað aftur áður en umræðunni lyki. Það verður að sjá hverju fram vindur með það.)

Ég þakka þessar skýringar.

Ég ætla að ræða aðeins um frumvarpið, en hæstv. menntamálaráðherra sagði í andsvari áðan að brýnt væri að klára þetta mál á þessu þingi, hún lagði áherslu á það. Hún sagði reyndar, svo allrar sanngirni sé gætt, að ef ekki næðist samkomulagi um það í nefndinni væri hún til viðræðu um eitt og annað í þeim efnum. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra einmitt til að gera það, vegna þess að við fyrsta lestur þessa frumvarps verð ég að segja að maður hnýtur um nokkur atriði. Við vitum hvert sjónarmiðið er varðandi það að hafa ríkisútvarp eða ekki ríkisútvarp. Ég ætla ekki endilega að fara í þá umræðu, en þær miklu breytingar sem verið er að gera með þessu frumvarpi vekja hjá manni spurningar.

Ég spyr fyrst: Hvert er tilefni þessara breytinga? Hvað þrýstir á um að gera þær? Maður hefur á tilfinningunni að það hafi verið farið af stað með frumvarp sem svo hefur eignast sitt eigið líf. Varðandi takmörkunina á hlutverki og skyldum Ríkisútvarpsins þá finnst mér hlutverk þess í almannaþágu, sem skilgreint er í II. kafla, um hlutverk og skyldur, vera orðið dálítið ómarkvisst. Það er skilgreint í 27 liðum en samt sem áður getur maður ekki fundið afmörkuninni stað, þetta á allt saman að fara í einhverja þjónustusamninga. Ég geri athugasemd við það og spyr hæstv. ráðherra af hverju það er ekki tínt til nákvæmlega hvað Ríkisútvarpinu er ætlað að gera og hvað ekki, vegna þess að við lestur frumvarpsins virðast vera tínd til alls konar atriði sem Ríkisútvarpið gæti gert og nefndar leiðir til að framkvæma þau með þjónustusamningum eða hvernig sem það á að vera. En spurningunni um hvort ríkisútvarp eigi endilega að vasast í öllum þessum hlutum er ekki svarað. Það slær mig þannig að Ríkisútvarpið hafi samkvæmt þessu miklar heimildir til að fara í alls konar starfsemi sem erfitt væri að skilgreina sem fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

Tökum sem dæmi 4. gr., um aðra starfsemi. Þar er rætt um að Ríkisútvarpið skuli stofna og reka dótturfélög fyrir aðra þá starfsemi en kveðið er á um í 3. gr. Hvaða starfsemi er það? Það er í raun ekkert skýrt. Það er engin takmörkun á því. Ég hefði viljað að hæstv. ráðherra hefði verið búin að fara í gegnum hvað geti hugsanlega verið um að ræða þarna, í stað þess að leggja til opna heimild fyrir Ríkisútvarpið svo að það geti, ef því dettur það í hug, stofnað dótturfyrirtæki um hverja þá starfsemi sem því hentar. Ég get nefnt sem dæmi ef Ríkisútvarpinu dytti í hug að stofna framleiðslufyrirtæki á sjónvarpsefni, kvikmyndafyrirtækið Kvikmyndaframleiðsla ríkisins. Ríkisútvarpið keypti síðan allar sínar myndir og sjónvarpsþætti af þessu framleiðslufyrirtæki sem mundi vaxa og dafna og mikil þekking byggjast upp hjá því. Það væri ekkert óhugsandi að það fyrirtæki færi að keppa við önnur fyrirtæki á markaði, einkafyrirtæki. Af hverju í ósköpunum ættum við endilega að vera með slíka framleiðslu þarna? Það er spurning sem ég held að við hefðum þurft að vera búin að svara áður en við gæfum Ríkisútvarpinu heimild til að stofna og reka dótturfyrirtæki um hvaðeina sem því dettur í hug.

Mig langar líka að ræða aðeins um stjórn Ríkisútvarpsins, í 9. gr. Við vitum hvernig stjórn Ríkisútvarpsins er kosin núna. Við kjósum hana á Alþingi. Hver þingflokkur tilnefnir sína fulltrúa eftir þingstyrk og það er sannarlega pólitískt. Það eru sannarlega pólitískt kjörnir fulltrúar í stjórn Ríkisútvarpsins. Það hefur verið gagnrýnt að pólitíkin hafi með þessu tök eða áhrif inn í Ríkisútvarpið og þá gagnrýni getum við rætt. Væntanlega er ætlunin með þessu frumvarpi að taka pólitíkina út úr Ríkisútvarpinu, og lagt er til að breyta þessu fyrirkomulagi. Í stað þess að við höfum þetta með þeim gegnsæja hætti sem nú er, að allir flokkar á Alþingi fái að tilnefna sína fulltrúa, er þetta sett í þann búning að ráðherra skipi einn fulltrúa og einn til vara í sjö manna stjórn, síðan komi allsherjar- og menntamálanefnd sér saman um þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara, Bandalag íslenskra listamanna tilnefni einn fulltrúa og annan til vara, og samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefni einn fulltrúa og annan til vara. Auk þess tilnefna Starfsmannasamtök RÚV einn mann.

Ég verð að segja að ef ætlunin er að taka pólitíkina út úr stjórn Ríkisútvarpsins er þetta ekki aðferðin. Verða þeir fulltrúar sem allsherjar- og menntamálanefnd skipar sjálfkrafa, af því það ekki er kosið um þá í þingsal, faglegir og ópólitískir? Nei, ég leyfi mér að halda því fram að svo verði ekki. Ég held að þetta fyrirkomulag leysi ekki þetta atriði, þann mikla vanda sem þarna er við að etja, vegna þess að við verðum enn þá með pólitískt skipaða fulltrúa, en þeir pólitísku skipuðu fulltrúar verða skipaðir á lokuðum nefndarfundi af meiri hluta nefndarinnar, miðað við hvernig þetta atvikast oft í þinginu. Þá erum við með pólitíska fulltrúa og leysum þar með ekki þetta mál.

Þetta er eitthvað sem ég set hornin í, fyrir utan að maður veltir fyrir sér hlutverki fjölmiðils í almannaþágu. Með fullri virðingu fyrir listamönnum og háskólastiginu þá kemur fyrst upp í hugann hjá mér fréttaþjónusta og fréttafjölmiðlunin sem Ríkisútvarpinu er ætlað að stunda. Af hverju á ekki til að mynda Blaðamannafélag Íslands eða fulltrúar fréttamanna eða einhverjir slíkir aðilar sæti í stjórn til jafns á við listamenn sem hafa eitthvað um það að segja hvaða sjónvarpsefni og fjölmiðlaefni eigi að vera þarna? Þetta er hlutur sem er gagnrýniverður.

Ég vildi líka nefna eitt í sambandi við starfssvið stjórnarinnar, en í fyrsta lið af átta í 10. gr. er sagt að starfssvið stjórnarinnar sé, með leyfi forseta:

„Að móta í samvinnu við útvarpsstjóra áherslur í starfi, dagskrárstefnu og meginstefnu Ríkisútvarpsins til lengri tíma.“

Ég velti fyrir mér hvort þetta sé endilega heppilegt. Ef við ætlum, og sem er væntanlega ætlun hæstv. menntamálaráðherra, að taka hina pólitískt skipuðu stjórn út, breyta því og gera allt voða faglegt, hvað gerist þá ef allsherjar- og menntamálanefnd mundi nú bara skipa þrjá pólitíkusa? Eiga þeir þá að móta dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins? Ég sé ákveðna annmarka á því og held að ef ætlunin er að hafa þetta ópólitískt þurfi þetta annaðhvort að vera þannig að framkvæmdastjórinn, útvarpsstjórinn, hafi meira um þetta að segja eða einhver annar en úr pólitíkinni.

Það sem mér finnst hins vegar alvarlegast við þetta mál varðar tekjustofna Ríkisútvarpsins. Ég endurtek að ég hefði viljað heyra sjónarmið hæstv. fjármálaráðherra, þáverandi formanns fjárlaganefndar, sem setti í gang vinnu sem gengur gegn því fyrirkomulagi sem verið er að fara fram með varðandi tekjuöflun og tekjustofna Ríkisútvarpsins. Það er í rauninni með ólíkindum að lesa umsögn fjárlagaskrifstofunnar um frumvarpið. Ég ætla að fá að lesa hérna eina klausu úr henni sem er lýsandi fyrir þá gagnrýni sem þar er að finna. Á bls. 44 segir, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðuneytið telur slíka mörkun ríkistekna sem lögð er til í frumvarpinu ekki vera heppilegt fyrirkomulag. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð á grundvelli sjónarmiða um tekjuöflun, hagkvæmni og skilvirkni og að ákvarðanir um fjárheimildir einstakra verkefna eigi almennt að vera teknar á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga, óháð þeim tekjum, á grundvelli mats á fjárþörf verkefna og forgangsröð þeirra hverju sinni.“

Þetta fór hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vel yfir í ræðu sinni. Svo segir síðar í þessu áliti, með leyfi forseta:

„Í þessu ljósi verður að telja það misskilning á fjárstjórnarvaldi Alþingis og hlutverki fjárlaga sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins að með mörkun útvarpsskattsins til RÚV verði þetta félag í eigu ríkisins sjálfstætt eða óháð hinu pólitíska og efnahagslega valdi stjórnvalda. Fjármálaráðuneytið bendir á það í þessu sambandi að skýlaust er að íslenskum lögum að þótt útvarpsgjaldið væri markað til RÚV verður það áfram skattur sem telst til ríkistekna og að tekjurnar og fjárveiting til RÚV verða ákvörðuð í fjárlögum. Alþingi mun eftir sem áður ákveða fjárhæð gjaldsins og þar með t.d. hvort það taki hækkun með tilliti til verðlags fyrir næsta fjárlagaár hverju sinni. Alþingi mun einnig ákvarða ráðstöfun teknanna með fjárveitingu og þar með hvenær því verði veitt til útgjalda og hvort fjárveitingin verði jafnmikil og tekjurnar, eins og fjölmörg dæmi eru um í fjárlögum undangenginna ára. Vandséð er að opinbert fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins sem fjármagnað væri að mestu með skattlagningu og væri bundið skilmálum í samningi um þjónustustarfsemi sína gæti talist vera fjárhagslega algerlega óháð opinberu stjórnvaldi og fjárstjórnarvaldi Alþingis.“

Mér finnst fjárlagaskrifstofan vera að segja: Ríkisfyrirtækið RÚV getur ekki orðið að einkafyrirtæki óháð hinu pólitíska valdi og pólitískri aðkomu stjórnvalda vegna þess að það er rekið fyrir skattfé.

Ég er sammála því mati sem kemur fram hér að við þurfum að fara varlega í að færa fjárstjórnarvaldið héðan frá Alþingi til stofnana, hversu góðar og vel reknar sem þær eru, vegna þess að það er okkar hlutverk. Ríkisútvarpið hefur annað hlutverk. Ef ríkisstjórn á hverjum tíma ætlar sér að hafa vald yfir fjárveitingum og fjárlögum hvers árs verður hún að hafa tæki til þess að grípa í taumana ef henni sýnist ætla að bregða út af.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi nefna við 1. umr. þessa máls.