140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

framhaldsskólar.

715. mál
[16:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum.

Að undanförnu hefur verið í skoðun af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis hvort breyta þurfi framhaldsskólalögum með tilliti til þeirrar reynslu sem fengin er af lögunum frá gildistöku þeirra 1. ágúst 2008. Við þá skoðun hefur verið litið almennt til framkvæmdar laganna, þeirra álitamála sem upp hafa komið, svo sem þarfar á setningu reglugerða við lögin, samfélagsþróunar undanfarinna ára og sambærilegrar vinnu sem hefur farið fram vegna endurskoðunar grunnskólalaga frá sama ári. Þar er meðal annars horft til tillagna starfshóps á vegum nokkurra ráðuneyta sumarið 2010 um aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum og annarra málefna sem komið hafa inn á borð ráðuneytisins eftir setningu laganna.

Meginmarkmið lagasetningarinnar er að styrkja réttindi nemenda jafnframt því að leggja áherslu á ábyrgð nemenda á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum við aðra aðila skólasamfélagsins. Með þessari lagabreytingu sem hér er lögð til fær mennta- og menningarmálaráðuneytið skýrari lagastoð til að útfæra tiltekin atriði í reglugerðum, t.d. hvað varðar skólareglur, skólabrag og aðgerðir gegn einelti.

Þetta, eins og hv. þingmenn líklega muna, er ekki ólíkt þeim breytingum á grunnskólalögum sem voru lagðar til í fyrra og samþykktar. Það má segja að sú breyting sem ég mæli hér fyrir styðji við almenn markmið laga um framhaldsskóla en eitt af meginmarkmiðum þeirra var að byggja upp skólakerfi sem mundi þjóna þeim breiða hópi sem til þess leitar, skapa sveigjanleika svo að skólarnir geti mætt þessum hópi nemenda, efla nám til starfsréttinda og til háskólanáms og gefa nemendum í íslenskum framhaldsskólum færi á að sækja sér gagnlegt nám á sínum forsendum og hraða. Samtímis var lögð áhersla á samfélagslegt hlutverk framhaldsskóla og réttindi og skyldur þeirra einstaklinga sem skólanum er ætlað að þjóna. Í lögunum — sem er mjög merkilegt — var í fyrsta sinn skilgreindur réttur nemenda til náms í framhaldsskóla, m.a. með innleiðingu fræðsluskyldu til 18 ára aldurs sem legðist á stjórnvöld. Þar segir að allir þeir sem hafa lokið grunnskóla eða hafa jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri skuli eiga rétt til innritunar í framhaldsskóla og til að stunda þar nám fram að 18 ára aldri. Samhliða því að réttur nemenda var skilgreindur með þessum hætti var þeim jafnframt ætlað að virða þær skyldur sem fylgja námsvist í framhaldsskóla og þær reglur sem þar gilda.

Meginbreytingarnar sem þetta frumvarp felur í sér frá gildandi framhaldsskólalögum eru eftirfarandi:

Bætt er við ákvæði um rétt nemenda á kennslu við hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan og að framhaldsskóli skuli haga störfum sínum þannig að nemendur finni fyrir öryggi og njóti hæfileika sinna. Litið er á framhaldsskóla sem vinnustað nemenda þar sem almenn vinnuverndarsjónarmið eru virt. Kveðið er á um að nemendur eigi rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að tekið skuli tillit til þeirra eins og kostur er.

Bætt er við ákvæði um ábyrgð nemenda á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum. Eitt af því sem margir telja að hafi í raun og veru þurft að bæta við rétt nemenda er þetta ákvæði um ábyrgð. Nemendur skulu hlíta fyrirmælum, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum. Skólameistari hefur áfram heimild til að vísa nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið brjóti hann skólareglur, en skólinn skal leiðbeina nemanda yngri en 18 ára um mögulega endurkomu í nám óski hann þess.

Bætt er við ákvæði um ábyrgð aðila skólasamfélagsins á því að viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Bætt er við ákvæðum um skyldu skóla til að móta heildstæða stefnu til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi. Þar er meðal annars átt við einelti, annað ofbeldi sem og félagslega útilokun. Sett er ákvæði um sérstakt fagráð á vegum ráðuneytisins í eineltismálum sem útfært verður í reglugerð. Á eftir mun ég koma aðeins nánar inn á samspil þess við fagráð í eineltismálum tengdum grunnskólum.

Að lokum er framlengt ákvæði sem er ekki í beinum tengslum við önnur ákvæði þessa frumvarps en er tillaga um að framlengja ákvæði um breytingu á gjaldtökuheimildum framhaldsskóla. Þessar breytingar voru samþykktar á 137. löggjafarþingi 2009, þ.e. að framhaldsskóla væri heimilt til loka skólaársins 2011–2012 að innheimta af nemendum í verklegu námi efnisgjöld fyrir það efni sem skólinn léti þeim í té. Lagt er til að ákvæðið gildi áfram tímabundið eða út skólaárið 2013–1014.

Nú hef ég farið yfir þær breytingar sem felast í þessu. Eins og ég nefndi áðan felst í frumvarpinu tillaga um að ráðuneytið muni sjá um skipan og starfrækslu sérstaks fagráðs sem ætlunin er að verði ráðgefandi í erfiðum eineltismálum. Nánar verður mælt fyrir um starfsemi þessa ráðs í reglugerð. Þar horfi ég til þess að nýta eftir föngum nýstofnað fagráð í eineltismálum í grunnskóla og reynslu þess og er hugsanlega rétt að það verði eitt og hið sama fagráð, ég vonast til þess að málin verði ekki svo mörg að hafa þurfi mörg fagráð.

Ég tel að verulegur ávinningur verði af þessum breytingum fyrir skólasamfélagið. Réttur og ábyrgð nemenda er skýrð og kveðið er á um málsmeðferð og úrlausn ýmissa mála. Vissulega eru framhaldsskólarnir ólíkir grunnskólunum en ég veit að þær breytingar sem við gerðum hér í fyrra á grunnskólalögum og sú reglugerð sem var sett í kjölfarið hafa mælst vel fyrir hjá grunnskólum landsins og orðið til þess að skýra þessa stöðu og ég vona að hið sama verði með þessar breytingar á framhaldsskólalögum.

Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.