140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

viðurkenning á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

663. mál
[16:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þetta kann að vera einfalt mál, að reglugerðarheimild hafi eingöngu nýst fyrir hæstv. menntamálaráðherra sem hafi síðan birt reglugerðir um starfsréttindi heilbrigðisstétta og iðnaðarmanna. Þrátt fyrir að iðnaðarráðherra veiti lögverndun til rafvirkja, málara, múrara o.s.frv. hafa reglugerðir verið á hendi menntamálaráðherra.

Nú eru menntamál, fræðslumál gegnumsneitt, í höndum ráðherra menntamála. Allt skólakerfið eins og það leggur sig er undir menntamálaráðherra. Er ekki eðlilegast í ljósi þess að menntamálin eru á hendi hans, að útgáfa leyfa eða lögverndun sé í höndum menntamálaráðherra en ekki að einstaka fagráðherrar eins og iðnaðarráðherra eða velferðarráðherra, sem eru yfir málaflokki hjá ríkinu og koma ekkert nálægt menntun, hvorki iðnaðarmanna né heilbrigðisstarfsmanna, gefi út leyfi? Ég varpa bara þessari spurningu til hæstv. menntamálaráðherra, hvort það yrði ekki frekar til einföldunar og væri skynsamlegra, þar sem fræðslu- og menntamál, hvort heldur þau sem snúa að framhaldsskólum eða háskólum, eru undir umsjón og eftirliti hæstv. menntamálaráðherra, að það væri hans að bera ábyrgð á þessu.