140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

viðurkenning á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

663. mál
[16:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er góð spurning hjá hv. þingmanni. Mat okkar er að löggildingin snúist ekki síður um atvinnumarkaðinn en menntakerfið og þar af leiðandi sé eðlilegt að hún fari fram í þeim ráðuneytum sem sjá um eftirlit með starfsstéttum, til að mynda í tilviki velferðarráðuneytisins sem fer með eftirlit með starfi heilbrigðisstarfsmanna fari þá löggildingin fram og um leið eftirlit með því að starfsmenn sem vinna við stofnanir í þeim geira séu með löggild réttindi. Sama á í raun og veru við um iðnaðarmenn, hugsunin hefur verið sú að þetta sé fremur hluti af starfsumhverfi en menntaumhverfi. En þetta er eðlileg spurning sem hv. þingmaður varpar fram og ég legg til að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði þetta mál, því að í sjálfu sér er alltaf matsatriði hvorum megin löggildingin á að liggja. Mér finnst í öllu falli mikilvægt að eftirlit sé á hendi þeirra ráðuneyta sem fara með starfsumhverfið, að það geti ekki verið á hendi mennta- og menningarmálaráðuneytis.