140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[17:01]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að hér er verið að koma til móts við samkomulag sem gert var við stjórnarandstöðuna í september sl. um að slaka eins mikið á gjaldeyrishöftum og menn töldu sér fært að gera, en hér koma inn nokkrar greinar sem veita Seðlabankanum meiri rannsóknarheimildir sem og þyngja sektir. Í 11. gr. er mjög merkilegt að lagt skuli til að eftirlitshlutverk Seðlabankans verði útvíkkað þannig að rannsóknarheimildirnar séu ekki lengur eingöngu bundnar við upplýsingar sem lúta að gjaldeyrisviðskiptum. Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra um að útskýra þetta nánar. Er verið að koma hér á einhverjum lögreglurannsóknarheimildum fyrir Seðlabankann? Ég skil ekki hvaða upplýsinga Seðlabankinn þarf að afla sem ekki eru tengdar við gjaldeyrisviðskipti.