140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[17:05]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki alveg fullnægjandi svar en ég ætlast ekki til þess að hæstv. ráðherra geti svarað þessu nákvæmlega. Ég mun kalla eftir upplýsingum um þetta þegar málið kemur til nefndar en það vekur óneitanlega athygli að Seðlabankinn fái hér opna heimild til að afla upplýsinga og þær þurfi ekki endilega að vera tengdar gjaldeyrisviðskiptum. Þetta er það opið að Seðlabankinn gæti raunverulega farið fram á hvaða upplýsingar sem er svo lengi sem menn eru í einhvers konar viðskiptum í fjármálakerfinu.

Það vakti einnig athygli mína í ræðu hæstv. ráðherra að hér er verið að þyngja stjórnvaldssektir vegna þess að seðlabankamönnum hafi ekki fundist þær nægilega háar, þannig að brot sem hefði flokkast sem minni háttar er nú flokkað sem meiri háttar brot til að hægt sé að hækka sektirnar.

Sektir eru ákvarðaðar á Alþingi og það er alveg ljóst að þær eiga ekki að markast af því hvort Seðlabankinn eða aðrir sem leggja á sektir ákveði að brot séu minni háttar eða meiri háttar. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Eru mörg dæmi um að minni háttar brot hafi verið flokkuð sem meiri háttar brot til að hægt sé að beita hærri stjórnvaldssektum?