140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[17:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Herra forseti. Við ræðum enn og aftur breytingar á lögum um gjaldeyrismál sem snúast um gjaldeyrishöftin. Eins og við framsóknarmenn og fleiri bentum á þegar gjaldeyrishöftin voru sett á og allir vita sem þekkja til sögu gjaldeyrishafta bæði hérlendis og annars staðar í heiminum þá hafa slík höft þau áhrif að ævinlega verður til smuga sem menn leita í til að komast fram hjá höftunum og verkefni stjórnvalda verður því alltaf það að reyna að loka nýja gatinu en við það verður gjarnan til annað gat. Afleiðingin er vítahringur þar sem höftin verða sífellt harðari, eftirlit verður aukið og erfiðara og ótrúverðugra verður að losa um höftin og smátt og smátt hafa menn ekki þá trú að það sé hægt.

Þetta frumvarp hefur þó nokkra kosti. Í til að mynda athugasemdum sem fylgja með frumvarpinu í II. lið á bls. 5 er fjallað um að helstu breytingar sem eru lagðar til snúi að því að rýmka takmarkanir á hækkun framfærsluheimilda, endurfjárfestingarheimilda og frekari heimilda til gjaldeyrisviðskipta í tengslum við atvinnustarfsemi og rýmkun á heimild til erlendrar lántöku eins og ágætlega kom fram í ræðu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Þá er einnig „gert ráð fyrir heimild fyrir innlenda aðila til kaupa á farartæki til eigin nota innan lands. Er heimildin takmörkuð við eitt farartæki á almanaksári fyrir allt að jafnvirði 10 millj. kr.“

Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar á undan mér er það svolítið sláandi að við séum virkilega komin á þann stað árið 2012 að í lögum um gjaldeyrisviðskipti sé tekið sérstaklega fram að innlendir aðilar hafi heimild til að kaupa farartæki fyrir allt að jafnvirði 10 milljóna, en þeim sé ekki treyst betur en svo að til að koma í veg fyrir misnotkun verði viðskiptin jafnframt háð staðfestingu Seðlabankans.

Þetta minnir á gamlar sögur um menn sem þurftu að ganga fyrir Pontíus og Pílatus og þá félaga alla, bankastjóra, ráðherra, ráðuneytisstjóra og skömmtunarstjóra, um miðja síðustu öld til að fá leyfi til að kaupa farartæki, dráttarvélar eða önnur atvinnutæki. Það er ótrúlegt að við skulum vera komin á þann stað í dag.

Reyndar er einnig lagt til í frumvarpinu, herra forseti, að „framkvæmd eftirlits með gjaldeyrisviðskiptum vegna greiðslna vaxta, verðbóta, arðs og samningsbundinna afborgana verði hert og almenn heimild Seðlabankans til upplýsingaöflunar í þágu eftirlits rýmkuð til samræmis við heimild bankans til að afla upplýsinga í þágu rannsókna“.

Þetta jaðrar við persónunjósnir. Þó vill enginn að einhverjir stundi svartamarkaðsbrask eða misnoti lög og græði á þeim og þess vegna verður sú meðvirkni í þinginu að taka þátt í því að herða höft og auka eftirlit og snúa sífellt meir í þá átt að erfiðara verði að snúa af þessari braut að lokum.

Síðan er fjallað í meginútskýringum við frumvarpið um að Seðlabankinn hafi kannað leiðir til að losa um höft á beinar erlendar fjárfestingar, sem samfélagið hrópar vissulega eftir til að koma hér hjólum atvinnulífsins í gang, en samkvæmt áætlun, eins og hér stendur, „um losun gjaldeyrishafta verður losað um höft á beina erlenda fjárfestingu áður en önnur fjármagnsviðskipti verða gefin frjáls þegar annar áfangi áætlunarinnar hefst, þ.e. verði ekki talið óhætt að losa um öll höft í einum áfanga“. Hins vegar er sagt að ákveðið hafi verið að leggja ekki til að heimila sérstaklega beina erlenda fjárfestingu að þessu sinni.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins, fylgiskjali með kostnaðarmati, er hin fræga setning, eða hún fer að verða fræg þar sem hún er margtuggin, „heimild til að kaupa farartæki fyrir allt að jafnvirði 10 milljóna“ sem minnir á umræðuna sem var hér fyrir nokkrum missirum þegar fram kom frumvarp sem virtist stefnt í þá átt að þegar menn kæmu til baka úr ferðalögum yrðu þeir að standa á höfði til að hægt væri að hrista erlendu krónurnar, evrur, dollara og pund, úr vösum þeirra og skila þeim ellegar væru þeir orðnir glæpamenn og gætu átt það á hættu að verða sektaðir eða kærðir og fengið stjórnvaldssektir, sem hækka verulega í þessu frumvarpi.

Undir lok umsagnarinnar stendur, með leyfi forseta:

„Tillögur frumvarpsins varða framkvæmd gjaldeyriseftirlitsins sem er í höndum Seðlabanka Íslands og má gera ráð fyrir að breytingarnar muni létta undir með bankanum í þeirri vinnu og geti þar með lækkað kostnað hans. Sektargreiðslur vegna brota á reglunum renna í ríkissjóð en engar forsendur eru til að meta umfang þeirra í þessu sambandi. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð en tekjur af sektargreiðslum gætu hugsanlega orðið hærri.“

Svo má spyrja sig hvort það sé rétt mat að breytingarnar muni létta undir með bankanum og geti þar með lækkað kostnað hans. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er tilhneigingin sú að þegar menn telja sig hafa lokað einu gati opnast annað og þá þarf aukið eftirlit og fleiri starfsmenn og kostnaður eykst. Látum það kannski liggja milli hluta. Við getum tekið þá umræðu þegar næsta breyting kemur hingað inn.

Verkefnið, herra forseti, er auðvitað að finna einhverjar leiðir til að komast út úr þessum gjaldeyrishöftum. Það verður að segjast eins og er að núverandi ríkisstjórn á mjög erfitt með að koma með trúverðuga lausn á því. Það felst fyrst og fremst í því að annar stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, er uppfullur af þeim hugmyndum að ekki sé til nein önnur leið en að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru og hefur notað nánast hvert einasta tækifæri síðan 2007, þegar sá flokkur komst í stjórn á Íslandi, til að tala niður íslensku krónuna. Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar fyrr í vetur, í mars, fór forsætisráðherra þar fram með einstaklega ósmekklegum hætti og talaði að mínu mati og margra annarra ákaft niður íslensku krónuna.

Mig langar af því tilefni að vitna, herra forseti, í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem hann hélt í þinginu þann 14. mars 2012:

„Ríkisstjórnin hefur að undanförnu að eigin sögn unnið að því að hægt verði að afnema hér gjaldeyrishöft en til stendur að afnema þau á næsta ári. Til að svo megi verða verða menn að vilja eiga krónur, vera tilbúnir að halda hér krónueign í stað þess að nota fyrsta tækifæri til að skipta öllum krónum í erlenda mynt. Það hefur hins vegar ekki gengið nógu vel hjá ríkisstjórninni að vinna að afnámi hafta og sést best á því að nú er enn verið að herða á höftunum.

Það sem er þó hvað alvarlegast í þessu er að hjá ríkisstjórninni og í yfirlýsingum ráðherra, m.a. hæstv. forsætisráðherra, birtist ekki neinn vilji til að afnema höftin. Þvert á móti má segja að ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu hvað eftir annað að eyðileggja möguleikana á því að höft verði afnumin. Yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra fyrir nokkrum dögum um að gjaldmiðill landsins væri ónýtur eru með stökustu ólíkindum. Að forsætisráðherra lands skuli halda slíku fram um eigin gjaldmiðil hlýtur að vera einsdæmi í heiminum öllum og því miður er hæstv. forsætisráðherra ekki sá eini sem hefur gefið út slíkar yfirlýsingar. Það hafa aðrir ráðherrar gert.“

Ég vil þó segja þar sem hæstv. Steingrímur J. Sigfússon efnahags- og viðskiptaráðherra er nú með þennan málaflokk að þetta gildir ekki um hann. Hann hefur sagt að íslenska krónan sé okkur fyllilega bær til framtíðar ef við stöndum rétt að málum. Það er auðvitað ekki trúverðugt þegar forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar og flestir ráðherrar, a.m.k. allir ráðherrar Samfylkingarinnar, tala stöðugt í hina áttina.

Það verður að segjast eins og er að menn hafa ekki trúað því að hægt sé standa við fyrirheit um afnám gjaldeyrishaftanna og þar af leiðandi verði þau hér um ókomna tíð af því að gjaldmiðillinn sé ónýtur. Ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar tala svona mun það hafa þau áhrif að menn hafa ekki trú á þessu. Þetta hjálpar ekki íslenskum heimilum. Það dregur engan veginn úr verðbólgu eða styrkir gengið eða það sem til þarf og örvar ekki erlenda fjárfestingu ef menn tala með þessum hætti.

Við sömu umræðu talaði hv. þm. Birkir Jón Jónsson um það sama og sagði af því tilefni, með leyfi forseta:

„Við stöndum frammi fyrir mjög vandasömu verkefni sem er að aflétta gjaldeyrishöftum sem íslensk þjóð er föst í. Ef ekkert verður að gert stefnir margt í að við munum búa við gjaldeyrishöft til næstu áratuga. Forsenda þess að aflétta gjaldeyrishöftum er sú að íslenska krónan nái sér á strik. Við horfum því miður upp á þá þróun þrátt fyrir að útflutningstekjur þjóðarinnar séu núna í miklu hámarki í sjávarútvegi og áliðnaði, svo dæmi séu tekin, að gengið er að veikjast.“

Ég vil bæta því við að fyrir utan sjávarútveg og áliðnað upplifum við nú mestu gósentíma í ferðaþjónustu sem þjóðin hefur upplifað. Það er meðal annars vegna þess að gengið er veikara en það var og því er hagstæðara að ferðast til Íslands, en það er líka vegna þess að náttúruöflin þó að óblíð séu hafa með eldgosi á hverju ári og náttúruhamförum auglýst land og þjóð rækilega um gervalla heimsbyggðina.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson bætti við:

„Á sama tíma kemur forsætisráðherra þjóðarinnar fram fyrir alþjóð og talar við umheiminn um að íslenska krónan sé ónothæf.“

Þetta er að mínu mati, herra forseti, algjörlega ótrúlegt og mun aldrei verða til þess að auka trúverðugleika gjaldmiðilsins. Það þýðir að trú á að núverandi ríkisstjórn geti losað um gjaldeyrishöftin er engin.

Mig langar undir lok ræðu minnar, hæstv. forseti, að halda áfram að vitna til þeirrar umræðu sem var í þinginu 14. mars síðastliðinn og vitna ég hér til hv. þm. Lilju Mósesdóttur, með leyfi forseta:

„Rót krónukreppunnar er að virði eigna þjóðarinnar er mun minna en virði skuldbindinga hennar. Lausn stjórnarflokkanna á vandanum er að herða höftin og taka upp evru. Höftin magna upp vandann og upptaka evrunnar lagar ekki þetta ójafnvægi. Höftin virka eins og virkjun sem lokar á útstreymið og bak við hana safnast upp uppistöðulón peninga á leið úr landi. Stöðugt þarf að herða höftin til að varna leka og sífellt erfiðara verður að standa við skuldbindingar okkar.“

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur lagt fram hugmyndir um útstreymisskatt. Það er nokkuð sem ég held að við ættum að ræða af þessu tilefni.

Herra forseti. Annar stjórnarflokkurinn hefur stefnu sem sumir hafa líkt við sértrúnað, sértrúnaðarstefnu. Þegar annar stjórnarflokkurinn talar í þá átt og hinn í hina verður trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar lítill og engin trú á að verið sé að fara að losa hér gjaldeyrishöft, samanber frumvarpið sem við erum að tala um í dag.

Ég vil taka undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar um að þetta snúist um trúnað og traust á efnahagslíf þjóðarinnar. Þetta snýst um að hafa trausta efnahags- og atvinnustefnu til að byggja upp atvinnu og auka hér útflutning. Við þurfum að auka útflutning um 60–80 milljarða til viðbótar við þann mun sem við erum þó með jákvæðan í dag, útflutningur þarf að aukast um 60–80 milljarða til að við náum þessu fram. Við framsóknarmenn höfum lagt fram tillögu sem við köllum Plan B, hana má sjá á planb.is til að sjá hvernig við viljum ná trúverðugleika, trausti og framþróun. Þá gætum við kannski í stað þess að ræða hér stöðugt um (Forseti hringir.) smugur og höft rætt um það hvernig við ætluðum að losa okkur úr þessum gjaldeyrishöftum.