140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

hlutafélög.

703. mál
[18:20]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, og varðar þann hluta hlutafélagalagabálksins sem tengist opinberum hlutafélögum.

Í þessu frumvarpi sem samið er í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu er lagt til, að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið, að gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæðum laga um hlutafélög er varða opinber hlutafélög. Jafnframt er gert ráð fyrir breytingu á ákvæðum um dagskrá og tillögur í hlutafélögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Þótt sett hafi verið í lög ákvæði um opinber hlutafélög í þeim tilgangi að einfalda rekstur slíkra félaga og gefa ríki og sveitarfélögum færi á að stunda rekstur á samkeppnisgrundvelli er mikilvægt að opinber hlutafélög séu gagnsærri en gengur og gerist um hlutafélög í einkaeigu og feti meðalveg milli þess að vera annars vegar opinber stofnun, sem fer meðal annars eftir stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, og hins vegar almennt hlutafélag. Er gert ráð fyrir að unnt sé að ná þessum markmiðum með því að láta slík félög fara að reglum um eigendastefnu ríkis eða sveitarfélaga gagnvart hverju opinberu hlutafélagi fyrir sig. Þá er gert ráð fyrir ákvæðum til að tryggja upplýsingaflæði í þessum félögum, m.a. með því að veita fulltrúum starfsmanna félagsins, sem um ræðir, rétt til að sækja aðalfund félagsins. Þeir fá jafnframt rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir á fundinum eins og kjörnir fulltrúar ríkis eða sveitarfélaga og þar með möguleika til að hafa enn frekari áhrif á starfsumhverfi sitt. Þá er gert ráð fyrir aðgangi þeirra að fundargerðabók aðalfundar eða staðfestu endurriti fundargerðar aðalfundar.

Ákvæði 3. gr. frumvarpsins um dagskrá og tillögur í hlutafélögum, þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, felur í sér breytingu á innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/36/EB frá 11. júlí 2007 um nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í skráðum félögum. Eru gildandi ákvæði ekki talin nægilega skýr hvað tímafresti snertir. Breytingarnar taka aðeins til aðalfunda í hlutafélögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir því að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, muni ekki hafa áhrif á fjárhag ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Ég legg svo til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.