140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

hlutafélög.

703. mál
[18:29]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að þetta er ekki stórvægilegt mál og farast ekki himinn og jörð hvort þessi ákvæði verði lögfest fyrr eða síðar, en væri kannski fróðlegt að vita þá á móti hvort hv. þingmaður telji þetta ekki til bóta.

Varðandi eigendastefnuna er staða þess máls, ef ég þekki það rétt sem ég held að ég geri, að mótuð var eigendastefna um fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins, gefin út formlega. Sú eigendastefna hefur stoð í lögum um Bankasýslu ríkisins sem fer með eignarhaldið. Jafnframt var boðað að samhliða og í framhaldinu yrði unnið að mótun almennrar eigendastefnu sem tæki til allra fyrirtækja í eigu ríkisins. Sú stefna hefur verið í vinnslu og er til í drögum, en hefur í sjálfu sér ekki lagastoð í hlutafélagalögum með ákvæðum um opinber hlutafélög og þykir meðal annars ástæða til að setja þetta inn í þann kafla laganna sem fjallar um opinber hlutafélög, að það sé fortakslaust og skýrt að þessi kvöð hvíli á opinberum hlutafélögum vegna þess að þau falla undir hlutafélagalög að öðru leyti þar sem ekki er vikið að slíkum hlutum.

Mótun eigendastefnu er tiltölulega nýtt fyrirbæri hér. Eins og hv. þingmaður ugglaust veit var hún ekki við lýði og ekki til fyrr en á dögum núverandi ríkisstjórnar og þá með því að byrjað var að móta hana hvað varðar eignarhald í fjármálafyrirtækjum.

Að hinu leytinu eru þau ákvæði um að styrkja stöðu starfsmanna og gefa þeim formlegri stöðu á fundum, væntanlega breytir það ekki miklu ef vel er tekið í það á slíkum fundum og þannig að þeim staðið að starfsmönnum er greiður aðgangur að fundinum og upplýsingum. En það sakar ekki að hafa það formlegt og hafa það sem skyldu að umgangast af tilhlýðilegri virðingu rétt starfsmanna til þess að fá upplýsingar á þeim vettvangi um það fyrirtæki sem þeir starfa hjá.