140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

hlutafélög.

703. mál
[18:33]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði svo sem ekki að engin þörf væri á því að setja inn þessi ákvæði um réttarstöðu starfsmanna á aðalfundum. Ég sagði hins vegar að í þeim tilvikum þar sem það væri tryggt, án þess að um það væri lagaboð, þá væri það hið æskilega. En það er ekki trygging fyrir því að svo sé alls staðar. Ég er tvímælalaust þeirrar skoðunar að rétt sé að ganga frá þessu með þessum hætti og hafa þetta fortakslaust og væri reyndar ef út í það væri farið tilbúinn til þess að ganga lengra í þá átt að tryggja betur starfsmannalýðræði.

Varðandi opinber hlutafélög og afstöðu, vilja eða stefnu eigenda þeirra þá þekki ég svo sem ekki dæmi þess að ákvarðanir aðalfunda þar sem eigandinn mætir sem slíkur hafi ekki verið virtar, en eigendastefnu er ætlað meira hlutverk en það. Hún gildir og bindur hendur stjórnenda og þeim ber að fara eftir henni, bæði framkvæmdastjórum og stjórnum slíkra félaga ef þær eru til staðar í daglegum rekstri þeirra og leggur þeim ákveðnar skyldur á herðar, svo sem eins og upplýsingagjöf, á sviði jafnréttismála, varðandi kjaramál, hófsemi í kjaramálum, umhverfismálum eða hvað það nú er. Henni er ætlað setja tiltekinn ramma, skýran, sem stjórnendur eiga að taka mið af í störfum sínum árið um kring en ekki bara í sjálfu sér að koma fram sem einskiptisvilji eigandans eins og gerist þegar eigandinn mætir á aðalfund. Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns.