140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

ökutækjatrygging.

733. mál
[18:38]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um ökutækjatryggingar. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérlög um ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja. Ákvæði um þessi atriði er nú að finna í XIII. kafla gildandi umferðarlaga og reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar, en í frumvarpi til nýrra umferðarlaga sem liggur fyrir þessu þingi á þskj. 1050, 656. máli, er ekki gert ráð fyrir ákvæðum um ökutækjatryggingar, heldur komi þær sem sjálfstæð ákvæði í sjálfstætt standandi lögum samkvæmt frumvarpi þessu.

Frumvarp til laga um ökutækjatryggingar var lagt fram á 139. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu og er nú lagt fram öðru sinni. Með tilliti til athugasemda er fram komu við meðferð frumvarpsins í viðskiptanefnd, sem nú heitir efnahags- og viðskiptanefnd, hafa efnisákvæði frumvarpsins tekið nokkrum breytingum sem raktar eru í almennum athugasemdum.

Megingreinar frumvarpsins eru samhljóða greinum XIII. kafla gildandi umferðarlaga. Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér eru:

Sérstök lög skulu gilda um lögmæltar ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja í stað XIII. kafla gildandi umferðarlaga.

Lagt er til að í lögunum verði reglur um atriði sem nú eru eingöngu í reglugerð en rétt þykir að verði í lögum, svo sem reglur um lok vátryggingar og tjón af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja. Ekki er þar um að ræða efnislegar breytingar frá gildandi rétti.

Lögð eru til áhrifaríkari úrræði vegna óvátryggðra ökutækja.

Lagðar eru til miklar breytingar á ákvæðum um vanskil og úrræði vátryggjenda. Í umferð munu vera yfir 5 þús. óvátryggð ökutæki miðað við janúar árið 2012. Ásamt því að vera óvátryggð er stór hluti þessara ökutækja jafnframt óskoðaður, enda gild vátrygging forsenda skoðunar.

Í frumvarpinu er lagt til að heimilt sé að leggja á sérstakt vantryggingagjald vegna óvátryggðra ökutækja, auk þess sem leggja má bann við notkun ökutækis. Fjárhæð gjaldsins skal ákvarða eftir gerð og búnaði ökutækis. Gjaldið má að hámarki nema 25 þús. kr. á mánuði. Getur uppsöfnuð heildarfjárhæð að hámarki numið 250 þús. kr.

Lagt er til að ráðherra verði heimilt að fela öðru stjórnvaldi álagningu og innheimtu vátryggingagjaldsins.

Lagt er til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að umráðamaður geti auk eiganda borið hlutlæga ábyrgð á tjóni sem skylt er að greiða eftir bótareglum frumvarpsins.

Í frumvarpi til nýrra umferðarlaga á þskj. 1050, 656. máli, er lagt til grundvallar að höfuðábyrgð á ökutæki hvíli á skráðum eiganda ökutækis og skyldur umráðamanns séu afleiddar af þeim kvöðum sem lagðar eru á skráðan eiganda ökutækis samkvæmt frumvarpinu. Sömu línu er fylgt í þessu frumvarpi, þ.e. að höfuðábyrgð hvíli ætíð á eiganda, það á að vera skýrt samkvæmt frumvarpi þessu.

Í þeim tilfellum þegar annar aðili en eigandi fer með umráð, svo sem samkvæmt eignarleigu- eða afnotasamningi, geta aðilar samið um tryggingar viðkomandi ökutækis sín á milli. Ábyrgð þess að ökutæki sé með tilskildar tryggingar hvílir þó ætíð á eiganda og hann sætir afleiðingum þess ef ökutæki er í umferð án tilskilinna trygginga.

Jafnframt er það skýrt að fébótaskylda samkvæmt 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins hvílir á eiganda einum.

Lagt er til að gildissvið slysatryggingar ökumanns og eiganda takmarkist við tjón sem verður vegna notkunar ökutækis í almennri umferð. Við umfjöllun um frumvarpið í viðskiptanefnd, nú efnahags- og viðskiptanefnd, á 139. þingi var um það rætt að breytingin mundi væntanlega hafa áhrif til lækkunar á iðgjöldum þeirra ökumanna sem einungis aka í almennri umferð, en upplýst var fyrir nefndinni að iðgjöld ökumanna í áhættuakstri eru lægri en útgjöld vegna tjóna í þeim flokki og hefur fyrrnefndi hópurinn því borið hluta þeirra með hækkuðum iðgjöldum.

Fram kom fyrir nefndinni að ökumenn umræddra ökutækja, svo sem torfæruhjóla, torfærubíla og keppnisbifhjóla, stæði áfram til boða að kaupa slysatryggingu ökumanns sem frjálsa tryggingu.

Samkvæmt 13. gr. frumvarpsins ber vátryggingafélag ábyrgð á tjóni gagnvart þriðja manni í mánuð frá þeim tíma er það sendir Umferðarstofu tilkynningu um að vátrygging sé fallin úr gildi. Lagt er til það nýmæli að umræddur mánaðarfrestur eigi aðeins við um ábyrgðartryggingu en ekki slysatryggingu ökumanns og eiganda. Ástæða þessarar breytingar er sú að ekki þykir eðlilegt að eigandi eða ökumaður óvátryggðs ökutækis njóti þeirrar sérstöku tryggingar sem slysatrygging ökumanns og eiganda felur í sér.

Lögð er til rýmkun á fyrningarreglum. Í 22. gr. er gerð tillaga um að ákvæði um fjögurra ára fyrningarfrest eigi ekki við um kröfur um bætur vegna líkamstjóns. Kröfur um bætur vegna líkamstjóns fyrnist á tíu árum frá tjónsatburði. Rökin fyrir tillögu um breytingu á fyrningarreglum eru einkum eðli líkamstjónsmála og óvissa hvað varðar mat á upphafi fjögurra ára fyrningarfrests í þeim málum. Undanfarið hefur málum fjölgað fyrir dómstólum þar sem deilt er um upphaf þessa frests. Virðist ekki hafa verið fullt samræmi í niðurstöðum dóma hvað þetta álitaefni varðar í einstökum málum. Má því telja að nokkur réttaróvissa ríki á þessu sviði sem er mjög óheppilegt. Með því að miða upphaf fyrningarfrests við tjónsatburð er þessari óvissu vonandi með öllu eytt.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu þessari vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.