140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

ökutækjatrygging.

733. mál
[18:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að hér sé á ferðinni frumvarp sem sé til bóta þrátt fyrir að það sé ekki alveg óumdeilt. Ef ég skil málið rétt er verið að breyta slysatryggingu ökumanns og eiganda — þá er ég að taka aðalatriðið í frumvarpinu — þannig að það mun ekki taka til tjóns sem verður við notkun ökutækis utan almennrar umferðar. Það þýðir lækkun á þessum þætti vegna þess að tjón af því tagi hafa verið mun hærri en iðgjöldin. Iðgjöld fyrir akstur í almennri umferð hafa í raun greitt fyrir tjón sem verður við notkun ökutækis utan almennrar umferðar, eins og til dæmis í torfæru og öðru slíku. Þetta mun væntanlega þýða lækkun á iðgjöldum og þá kannski sérstaklega á iðgjöldum af mótorhjólum sem hafa verið mjög há. Það hefur verið deilt um þau iðgjöld. Þau hækkuðu eftir lagabreytingu, hvort það eru 10 eða 15 ár síðan, man ég nú ekki.

Langstærsti hluti iðgjalda þegar menn kaupa sér mótorhjól er slysatrygging ökumanns. Þeir sem eru á mótorhjólum — og vilja halda því fram, kannski með réttu, að þeir keyri lítið og fari varlega, meðal annars vegna þess að þeir séu orðnir ráðsettir og komnir á aldur — segja að þeim sé gert illmögulegt að njóta þess að keyra á hjólunum sínum vegna þess að iðgjöldin séu svo há.

Þetta þýðir hins vegar lægri bætur fyrir þá aðila sem lenda í slysum fyrir utan almenna umferð, eins og í torfæruakstri og öðru slíku, nema þeir kaupi sér slysatryggingu sem frjálsa tryggingu. Við skulum átta okkur á því að það mun verða mjög dýr trygging, fyrst og fremst af tveimur ástæðum. Annars vegar eru slys því miður tíð og hins vegar verða örugglega mjög fáir sem kaupa slíka tryggingu. Þetta verður örugglega einhver ákveðinn hringur sem mun hækka verulega iðgjöldin, sökum þess hversu dýrt þetta er munu örugglega enn færri kaupa trygginguna.

Það eru hins vegar allra handa vandamál sem tengjast þessu sem vonandi leysast. Það er til dæmis allt of algengt að fólk sé að keyra, sérstaklega yngra fólk, á númerslausum hjólum upp á æfingasvæðin og bera það fyrir sig að iðgjöldin séu svo gríðarlega há að það hafi bara ekki efni á að greiða þau. Það er örugglega skárra ef sú staða er uppi að fólk greiði frekar lægri iðgjöld þó svo að það komi til lægri bóta ef eitthvað kemur fyrir en að viðkomandi einstaklingar séu bæði ótryggðir og séu að auki að keyra á svæðum sem ekki er heimilt að keyra á, eins og á göngu- og hjólreiðastígum og annars staðar þar sem ekki er gert ráð fyrir almennri umferð.

Ég hef séð það sjálfur hér í borginni að oft hefur legið við stórslysum út af þessu. Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar mætt einstaklingum á göngustíg sem keyra mjög hratt, vegna þess að þeir eru að reyna að komast óséðir á þau svæði sem þeir ætla að æfa sig á, keyra númerslausir og þar sem þeir eiga alls ekki að vera. Þegar ég var borgarfulltrúi tók ég þetta upp á vettvangi borgarinnar, hvort eitthvað væri hægt að gera við þessu. Þegar ég skoðaði þetta á sínum tíma voru þessar ástæður nefndar: iðgjöldin væru svo há að þessi ungmenni tryggðu ekki hjólin og þau væru númerslaus og síðan væri verið að stelast á torfæruæfingasvæðin. Vonandi verður þetta til þess, ef þetta nær fram að ganga, að koma í veg fyrir þá iðju.

Hins vegar skulum við líka átta okkur á því að við erum um leið að minnka tryggingu hjá fólki, hjá ökumönnum. Það þýðir auðvitað að ef viðkomandi einstaklingur lendir í tjóni fær hann lægri bætur. Stærsta einstaka málið er síðan að koma í veg fyrir tjón. Það er í þessu eins og öðru að við ættum nú að leggja meiri áherslu á umferðaröryggismál. Ég gæti haldið langa ræðu um það og hef haldið þær nokkuð margar hér í þinginu um umferðaröryggismál. Ég er ekki búinn að halda mínu síðustu, virðulegi forseti, því það er algjörlega óþolandi hvernig forgangurinn er í samgöngumálum okkar Íslendinga. Það er óskiljanlegt og fullkomlega óþolandi að ekki náist breið pólitísk samstaða um breytta forgangsröðun í samgöngumálum.

Umferðaröryggismál eru gríðarlega stórt mál. Þau tengjast ekki bara samgöngumálum heldur öllum þáttum mannlífsins, ekki síst heilbrigðismálum. Kostnaðurinn af umferðarslysum er gríðarlegur í krónum og aurum, en auðvitað er langmesti kostnaðurinn tilkominn út af tilfinningalegum kostnaði, vegna þess að það fólk sem lendir helst í slysum er ungt fólk sem bæði örkumlast og deyr á hverju ári vegna þess að við erum ekki að leggja áherslu á umferðaröryggismál í okkar samgöngumálum. Það er ekkert hægt að orða það neitt öðruvísi, því það er búið að sýna fram á það, og er þekkt, að bygging umferðarmannvirkja hefur gríðarleg áhrif. Það er hægt að koma í veg fyrir slys, auðvitað ekki öll slys, það verður aldrei hægt, en það er hægt að koma í veg fyrir slys með réttri byggingu umferðarmannvirkja. Þessi þekking er öll til staðar.

Það er reyndar þannig, virðulegi forseti, að við erum búin að taka út alla helstu þjóðvegi landsins, meta þá út frá umferðaröryggisstöðlum sem eru þekktir og notaðir út um allan heim, þannig að við vitum núna hvaða vegir eru hættulegastir, við vitum hvar er mesta áhættan og okkur er ekki neitt að vanbúnaði til þess að fara að forgangsraða í þágu umferðaröryggis.

Nú kynni einhver að segja að ég væri kominn örlítið út fyrir efnið. Ég vil nú bara segja við þann sem er að hugsa það að það er alveg hárrétt, það má alveg færa rök fyrir því, en þetta tengist þó allt saman. Hér erum við að ræða ökutækjatryggingar og það tengist umferðaröryggismálum. En svona fljótt á litið, virðulegi forseti, sýnist mér að það sé skynsamlegt að fara þessa leið. Ég held að við leysum nokkur mál með því að fara þá leið sem lagt er upp með í þessu frumvarpi, en samt sem áður er sá galli fyrir hendi að þetta mun þýða að þeir aðilar sem eru tryggðir núna verða væntanlega með lægri tryggingar eða engar tryggingar nema þeir taki upp á því sjálfir að kaupa frjálsar tryggingar sem verða mjög dýrar.