140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

lengd þingfundar.

[15:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við að óskað sé eftir heimild til lengri þingfundar í dag. Hv. þingmenn treysta í einfeldni sinni á þetta plagg sem er starfsáætlun þingsins. Hæstv. forseti hefur ítrekað lagt sig fram um að telja okkur trú um að hún sé það sem unnið er eftir. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að á fundi þingflokksformanna fyrir viku var lögð fram áætlun um þinghald næstu tveggja vikna, þar á meðal dagsins í dag, og það kom ekkert fram um að settur yrði annar fundur að loknum fyrirspurnafundi. Það var tilkynnt með tölvupósti án alls samráðs við okkur þingmenn í stjórnarandstöðunni seint á föstudaginn, ég held að það hafi verið komið fram á kvöld á föstudaginn þegar tilkynnt var um þetta.

Þetta er algerlega óásættanlegt, frú forseti, þar sem allir vita að á mánudögum er fyrirspurnafundur. (Forseti hringir.) Á þeim þingfundi er ekki mætingarskylda, það er eini þingfundurinn þar sem ekki er mætingarskylda. Síðan er frídagur á morgun (Forseti hringir.) og það er vitað að fjölmargir þingmenn hafa gert áætlanir. Ég geri því athugasemd við þetta, frú forseti, (Forseti hringir.) og mér finnast þessi vinnubrögð ólíðandi.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á mörk ræðutíma og biður hv. þingmenn að virða þau tímamörk.)