140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

lengd þingfundar.

[15:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að mótmæla því að við höldum seinni fundinn fram á kvöld og nótt. Á föstudaginn þegar þingmenn voru að ljúka störfum og fara til síns heima, lá ekki fyrir að það ætti að vera fundur fram á kvöld. Á dagskrá eru mál sem menn vilja gjarnan taka þátt í umræðunni um. Þetta er ekki þinginu til sóma. Þetta er ekki skynsamleg leið til að leysa þann vanda sem ríkisstjórnin hefur sjálf komið sér í, að koma að málum allt of seint inn í þingið. Það er ekki skynsamlegt að tætast hér áfram á þessum degi. Eins og fram hefur komið er ekki skyldumæting, það er frídagur á morgun og menn hafa skipulagt mál sín og störf sín með ýmsum hætti. Ég óttast að þetta sé enn eitt dæmi um að við munum í lok þessa vorþings vera að reyna að afgreiða hálfunnin mál fram á nætur og afleiðingin verður sú, frú forseti, (Forseti hringir.) að á næsta þingi munum við taka öll þau mál upp aftur, eins og hefur margoft gerst.

Ég mun greiða atkvæði gegn því að þessi heimild verði veitt.