140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

framhald ESB-viðræðna.

[15:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil bera það upp við mennta- og menningarmálaráðherra hvernig hún sér stöðuna í Evrópusambandsaðildarviðræðunum, ekki síst í ljósi þess að nýlega lét hún þau orð falla að hún teldi öruggt, eða því sem næst, að Íslendingar mundu á endanum ekki vilja ganga inn í Evrópusambandið. Spurningin er þessi:

Hvernig sér ríkisstjórnin og ráðherrar hennar fyrir sér að við höldum áfram viðræðuferlinu, sem hefur verið mjög tafsamt og tekið lengri tíma en átt hefur við um önnur EES-ríki? Í dag er staðan sú að við höfum einungis lokið viðræðum í um tíu köflum, þeim hefur verið lokað til bráðabirgða. Við höfum teflt fram samningsafstöðu í 20 köflum af 33 og það verður ekki fyrr en í júní í sumar sem hugsanlega verður komin fram samningsafstaða í um það bil 29 köflum. Það er því augljóst að eina sem hefur gerst frá því að viðræður hófust er að við höfum lokað viðræðuköflum til bráðabirgða um hluti sem voru augljóslega þá þegar í samræmi Evrópulöggjöfina hér á landi, fyrir utan tvo kafla reyndar.

Það hefur sem sagt gengið hægt. Ráðherrann telur að Íslendingar muni ekki samþykkja samninginn þegar upp er staðið. Stefnt var að því að ljúka viðræðum á þessu kjörtímabili. Það virðist ekki ætla að takast. Hvernig sér ráðherrann fyrir sér að kjörtímabilinu ljúki, með tilliti til viðræðnanna við Evrópusambandið? Er hún til dæmis sammála þeim ráðherrum í ríkisstjórninni sem nú tala fyrir því að við látum reyna til fulls á erfiðu kaflana þegar á þessu ári, til að hægt sé að hleypa almenningi að ákvörðun um það hvort halda eigi ferlinu áfram?