140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

framhald ESB-viðræðna.

[15:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er ljóst að þetta ferli hefur auðvitað tekið lengri tíma en kannski ýmsir í þessum sal töldu, enda má raunar segja að umsóknarferlið hafi lengst eftir inntöku þeirra ríkja sem síðast gengu í Evrópusambandið. Það er því ekki hægt að bera saman það aðildar- eða umsóknarferli sem við erum í nú og til að mynda það ferli sem Noregur gekk í gegnum á sínum tíma, svo því sé til haga haldið. Ferlið hefur tekið ákveðnum breytingum og það snýr ekkert sérstaklega að Íslendingum heldur bara hreinu ferlinu í sjálfu sér, af hálfu Evrópusambandsins.

Ég er ekki heldur sammála hv. þingmanni um að lítið sem ekkert hafi gerst í ferlinu. Það liggur margt fyrir. Ég get hins vegar tekið undir að ég hefði viljað sjá það ganga hraðar því ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt að við fáum að vita sem mest, að við fáum niðurstöðu í sem flesta kafla sem fyrst. Það er mín skoðun. Þegar hv. þingmaður vísar til þess að ég telji að Íslendingar muni líklega fella aðild í atkvæðagreiðslu þá er ekkert launungarmál að það hefur verið afstaða mín alla tíð. Ég hef talið að þjóðin tæki þá afstöðu, og fyrir mína parta tel ég mig vita nokkurn veginn hvað komi út úr samningaviðræðunum. En hins vegar tel ég mjög mikilvægt að á það sé látið reyna og mín afstaða hefur alltaf verið sú að í þessu máli eigi þjóðin að eiga síðasta orðið. Æskilegt væri að það gæti orðið á þessu kjörtímabili en það liggur hins vegar fyrir að við vitum ekki nákvæmlega hvaða efnislegu niðurstöður munu koma. Ég sagði í þessum sal í síðustu viku að við mundum til að mynda ekki fá opnunarskilyrði fyrir sjávarútvegskaflann fyrr en í sumar í fyrsta lagi. Mér finnst mjög mikilvægt að þjóðin fái eitthvað til að greiða atkvæði um og að sjálfsögðu sem fyrst en ég er ekki búin að móta mér skoðun á því hvernig nákvæmlega eigi að ljúka þessu kjörtímabili með tilliti til þessa máls.