140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

framhald ESB-viðræðna.

[15:11]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það má segja sem svo að við í þessum sal getum verið sammála um að fyrst meiri hluti þingsins ákvað á annað borð að sækja um aðild að Evrópusambandinu, höfðum við öll væntingar um að eitthvað kæmi út úr ferlinu, einhverjar upplýsingar, einhver ný staða, eitthvað sem við gætum notað til að leggja mat á málið. En nú eru að verða liðin þrjú ár og þetta gengur ekki hraðar en raun ber vitni.

Í ljósi þeirrar stöðu sem hæstv. ráðherra vísar til, þ.e. að æskilegt sé að skapa þá stöðu að fólk hafi eitthvað fyrir framan sig til að taka afstöðu til, þá spyr maður sig: Nú eru þrjú ár liðin og við erum ekki komin lengra. Á að taka önnur þrjú ár? Á að taka kannski sex ár í viðbót? Hvað er ásættanlegt í þessu samhengi? Er hægt að standa í viðræðum við Evrópusambandið í fleiri kjörtímabil með jafnveikum stuðningi og er héðan frá þinginu?

Nú liggur æ betur fyrir að margir stjórnarþingmenn greiddu atkvæði einungis út frá þeirri forsendu (Forseti hringir.) að fá að vita hvað kæmi út úr þessu, en þeir ætluðu sér raunverulega ekki að styðja samninginn þegar hann kemur, eins og mér heyrist hæstv. ráðherra vera að segja.