140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

fylgi við ESB-aðild og íslenska krónan.

[15:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði, birti niðurstöður skoðanakönnunar sem hann stóð fyrir þar sem hann spurði nokkuð beint um afstöðu til Evrópusambandsins. Þar kom fram að 54% þjóðarinnar eru á móti ESB en aðeins 27,5% voru hlynnt því. Það hefur líka komið fram að meiri hluti allra kjósenda allra flokka og flokksbrota, nema Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar, eru á móti Evrópusambandsaðild.

Þá hefur einnig komið fram að Samtök iðnaðarins sem áður voru hlynnt aðild að ESB hafa kúvent í afstöðu sinni og sama má segja um ýmsa ráðherra, nú síðast hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, sem komið hafa fram og talað gegn aðild.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé kominn tími til að opna augu og eyru og fara að hlusta á þjóðarvilja. Aðrar þjóðir hafa sett aðildarviðræður í bið og ég minni þá á sem hlynntir eru Evrópusambandsaðild að Malta gerði það um fjögurra ára skeið vegna þess að staðan var nákvæmlega eins og ég lýsti áðan, það var enginn vilji til þess meðal maltnesku þjóðarinnar eða meiri hluta stjórnmálamanna á þinginu þar á sínum tíma og þess vegna settu þeir málið í bið.

Ég vil einnig spyrja hæstv. forsætisráðherra, vegna umræðu um skýrslu utanríkisráðherra í síðustu viku þar sem rætt var um að koma íslensku krónunni í einhvers konar í skjól hjá Evrópusambandinu, hvernig hæstv. forsætisráðherra sér það gerast. Á það að gerast með sambærilegum hætti og við höfum séð á Írlandi, að skuldsetja þjóðina, koma skattborgurum í vítahring með 14,5% atvinnuleysi og viðvarandi kreppu næstu árin? Það er staða sem þeir sjá ekki fram úr að eigin sögn. Hver er skoðun hæstv. forsætisráðherra á þeirri leið sem hæstv. utanríkisráðherra lýsti í skýrslu sinni í síðustu viku?