140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

fjárframlög til Landbúnaðarháskóla Íslands.

[15:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er gott að finna þann skilning sem mér hefur fundist hv. þingmenn hafa á málefnum landbúnaðarháskólanna. Það er rétt að þegar Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Hólaskóli voru færðir upp á háskólastig og fóru síðar frá landbúnaðarráðuneyti yfir til menntamálaráðuneytis var í hvorugu tilfelli gerður upp fortíðarvandi. Það er auðvitað ekki gott. Þannig hefur til að mynda Landbúnaðarháskólinn verið með uppsafnaðan halla sem hefur reglubundið verið gerð athugasemd við af hálfu Ríkisendurskoðunar. Eins og kemur fram í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið sótt um að fá þennan halla felldan niður. Þar kemur fram svart á hvítu að við höfum haft vilja til að beita okkur í þessu máli.

Það er hins vegar rétt sem hefur verið rætt, m.a. af hálfu fjármálaráðuneytis, að það er mikilvægt að þegar halli er felldur niður sé líka komið á jafnvægi í rekstri og helst auðvitað að stofnanir geti á einhvern hátt unnið á sínum halla. Við höfum þannig ekki litið á þetta sem aðskilið verkefni heldur eitt verkefni, þ.e. annars vegar að koma rekstrinum í jafnvægi yfir árið og hins vegar að skoða þennan uppsafnaða halla.

Þegar skólinn fékk 70 millj. kr. viðbótarfjárframlag haustið 2009, ef ég man rétt, fyrir fjárlögin 2010, átti það að duga til að koma rekstrinum í lag. Þetta átti sem sagt ekki að vera viðurkenning að hluta heldur átti að duga til þess að rétta af hallann. Eins og hv. þingmaður bendir hins vegar á hefur skólinn mátt sæta miklum niðurskurði eins og aðrir háskólar, upp á 20% á þessum þremur árum, og það hefur hreinlega sagt til sín.

Við erum í viðræðum við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Ég hef að sjálfsögðu átt fund með skólameistara og fulltrúum háskólaráðs um málið og það standa yfir viðræður af hálfu ráðuneytisins (Forseti hringir.) við skólann um hvaða leiðir sé best að fara til að koma rekstrinum aftur á réttan kjöl.