140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

ráðstöfunartekjur og húsnæðiskostnaður.

[15:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í morgun birtist skýrsla Hagstofunnar um ráðstöfunartekjur og húsnæðiskostnað. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Árið 2011 vörðu 11,3% Íslendinga yfir 40% ráðstöfunartekna sinna í húsnæðiskostnað. Þeir sem voru líklegastir til að búa við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað“ — það er skilgreining á því að eyða meira en 40% af tekjunum í húsnæði — „voru ungt fólk, þeir sem bjuggu í óniðurgreiddu leiguhúsnæði, bjuggu einir eða voru í lægsta tekjufimmtungi.“

Þetta segir okkur að þeir sem eru verst staddir í þjóðfélaginu eyða mest í húsnæði eftir allar stuðningsaðgerðir, húsaleigubætur og annað slíkt.

Í þessari skýrslu kemur fram að í lægsta tekjufimmtungnum, þ.e. í hópi þeirra 20% sem voru með lægstar tekjur, eru 32% sem greiða meira en 40% af tekjum í húsnæðiskostnað. Það kemur líka fram að leigjendur eru verst settir í þessari skýrslu. Það eru 22% leigjenda sem borga meira en 40% í húsnæðiskostnað og hafa aldrei verið fleiri.

Nú er það spurning mín til hæstv. velferðarráðherra, sem á að gæta að velferð fólks í landinu og velferðarkerfinu, hvort það sé fullnægjandi á sama tíma og ríkið setur tugi milljarða, eflaust nauðsynlega, til að niðurgreiða lán og annað slíkt hjá þeim sem skulda, að þetta sé staðan (Forseti hringir.) hjá lægst launaða fólkinu og leigjendum.