140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

ráðstöfunartekjur og húsnæðiskostnaður.

[15:37]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á Hagtíðindum Hagstofunnar. Ég held að sé afar mikilvægt eins og með hina skýrsluna sem hér var fyrr til umræðu að við skoðum þær tölur sem birtast okkur, skoðum hvað þær segja okkur og hvaða ráð við höfum til að bregðast við.

Eitt forvitnilegt sem vantaði í þessar athugasemdir hv. þingmanns er að árið 2006 var ástandið þannig að 14,3% borguðu meira en 40% af ráðstöfunartekjum í húsnæði. Það er líka ljóst af þessum tölum, það hefur áður komið fram og hefur verið brugðist við því, að þær eru áfellisdómur yfir séreignarstefnunni sem hefur verið í landinu. Við erum með lélegan leigumarkað, hann hrundi meðal annars í hruninu, og gríðarlega háa húsaleigu. Við þurfum að byggja þetta allt saman upp. Við þessu hefur verið brugðist með því að húsnæðishópur skilaði hér niðurstöðu. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi verið í þeim hópi. Þar kom fram tillaga um að taka upp húsnæðisbætur og reyna að jafna stöðu leigjenda og eigenda á húsnæðismarkaði. Það skiptir mjög miklu máli til framtíðar að við jöfnum þessa stöðu þannig að fólk eigi raunverulegt val um að þurfa ekki að taka á sig skuldaklafa, heldur geti búið í öruggri leigu til langs tíma á viðráðanlegum kjörum.

Það er nefnilega svolítið merkilegt að skoða þessar tvær skýrslur sem eru að koma fram og bera saman við ástandið fyrir hrun, m.a. hvað varðar skuldastöðu, t.d. hver vanskilin voru, hvernig eignastaðan var og annað. Við vorum á þeim tíma á hræðilegri leið sem við þurfum að leiðrétta núna í framhaldinu og hefur hingað til tekist mjög vel. Hér er ég að tala um skýrsluna frá Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands. Okkur hefur tekist að jafna stöðuna og bæta þar úr, en við eigum töluvert mörg skref eftir ótekin og það er þá eins gott að þau skref verði tekin af þeim sem vilja leysa vandamálið.