140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

ráðstöfunartekjur og húsnæðiskostnaður.

[15:40]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, ekki samt að það skorti framtíðarsýn. Hún er skýr. Við höfum einmitt tekið þá afstöðu í framhaldi af vinnu húsnæðishópsins að við ætlum að leggja áherslu á að jafna stöðu leigjenda og þeirra sem búa í eigin húsnæði. Við ætlum að leggja áherslu á að leigjendamarkaðurinn sé raunverulegur valkostur. Við höfum gefið Íbúðalánasjóði heimild til að stofna leigufélag þar sem hann getur þá nýtt sér þær 600 íbúðir sem þegar eru í höndum hans og í útleigu, að þær verði á leigumarkaðnum til langs tíma. Við höfum verið í samskiptum við lífeyrissjóðina, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin hér í kring um að stækka leigumarkaðinn. Núna er verið að vinna við námsmannaíbúðir í tengslum við Félagsstofnun stúdenta. Allt þetta skiptir mjög miklu máli.

Ég tek ekki til mín þegar eingöngu er verið að ræða skuldavanda vegna þess að ég hef ítrekað bent á að við verðum að skoða þetta sem greiðsluvanda. Við verðum að skoða það. 30% aðila sem eru í greiðsluvanda eru ekki í eigin húsnæði og eru ekki að borga af skuldum vegna (Forseti hringir.) húsnæðis. Allt þetta þarf að taka inn í myndina þegar við erum að leysa málið. Hv. þingmaður er velkominn í liðið til að beina sjónum að þessu til lausna.