140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[15:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við hefðum kannski þurft aðeins rýmri tíma en þetta knappa form leyfir til að ræða þessi mikilvægu mál en við gerum okkar besta. Í fyrsta lagi er mikilvægt að hafa í huga að það er auðvitað búið að grípa til fjölmargra ráðstafana gegnum tíðina frá 2009, allt frá upphafsbráðaaðgerðum eins og frystingu lána og stöðvun nauðungaruppboða og síðan yfir í aðgerðir eins og greiðslujöfnun, almenna og sértæka skuldaaðlögun, 110%-leið, verulega hækkun almennra vaxtabóta og upptöku sérstakra vaxtaniðurgreiðslna upp á 6–6,5 milljarða kr. hvort ár 2011 og 2012. Við sjáum það núna í rannsóknum og mælingum að þær aðgerðir eru þegar farnar að skila verulegum árangri. Engu að síður er það vissulega staðfest að áfram eiga ákveðnir hópar í vandræðum og það staðfesta rannsóknir líka. Þar má nefna bæði úttekt Seðlabankans og fleiri gögn sem við höfum í höndum.

Það er líka að verða betur og betur ljóst hvar þessi vandi brennur mest á, það eru tekjulægri barnafjölskyldur, einkum hinar yngri eða þær sem keyptu húsnæði eða stækkuðu við sig á árunum rétt fyrir hrunið, það eru tekjulágir einhleypir aðilar sem búa einir og svo eru það leigjendur. Það er auðvitað alveg ljóst. Þar er í lífskjararannsókn Hagstofunnar afar sláandi að í raun eru það kannski leigjendur og ekki bara þeir sem leigja á almennum markaði heldur líka hinir leigjendurnir sem eiga að njóta niðurgreiddrar húsaleigu en hafa fengið á sig fullar vísitöluhækkanir hennar allan tímann sem hafa orðið fyrir mestum búsifjum. Það kemur auðvitað á óvart í rannsóknum Hagstofunnar hvað greiðslubyrði þeirra sem eru að borga af húsnæði hefur í raun og veru breyst lítið borið saman við hina, að meðaltalið þar og meðaltalshúsnæðiskostnaðurinn skuli ekki hafa hækkað meira en raun ber vitni og vera lægri en hann var á árinu 2006. Ef við tökum þá sem borga af eigin lánum verja þeir lægri hluta ráðstöfunartekna sinna á árinu 2011 í afborganir en þeir gerðu árin 2005 og 2006. Það eru því ýmsar mjög gagnlegar upplýsingar að finna í þessu, sömuleiðis greining á þeim sem eru með verulega íþyngjandi greiðslubyrði svokallaða, þ.e. verja meiru en 40% ráðstöfunartekna sinna í húsnæðiskostnað, þeir eru 11,3% nú en voru 14,3% árið 2006 og það eru leigjendurnir aftur sem ýta greiðslubyrðinni sérstaklega upp í þessum hópi. Ég hef ekki tíma til að fara rækilegar ofan í þetta en þetta eru athyglisverðar upplýsingar.

Það kemur líka mjög skýrt í ljós að vandi þeirra fjölskyldna sem eru í greiðsluerfiðleikum stafar ekki síður af öðrum skuldum en fasteignaskuldum. Má segja að það sé alveg helmingur þegar það er greint. Ýmiss konar neyslulán, námslán, bílalán, yfirdráttarlán, kreditkortaskuldir og önnur almenn neyslulán standa fyrir alveg fyllilega helmingi af greiðsluvanda þeirra fjölskyldna sem þannig háttar um. Oft og tíðum eru þessi lán miklu þyngri í skauti — því að þau eru stutt, a.m.k. sum þeirra — en jafnvel fasteignaveðlánin sjálf.

Varðandi lánsveðshópinn starfaði sérstakur starfshópur sem fór af stað í febrúar við að greina þann vanda og skilaði áliti á dögunum sem er nú notað í viðræðum við Samtök fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóðina um að reyna að ná saman um að klára þann hóp sem ekki hefur fengið 110%-leiðina með sama hætti og aðrir gagnvart lánum sem hvíldu á eignum skuldara. Búið er að afmarka þennan vanda held ég eins vel og hægt er miðað við fyrirliggjandi gögn frá ríkisskattstjóra, Þjóðskrá og fleiri aðilum. Það liggur fyrir að um 3.900 skuldarar notuðu lánsveð til að fjármagna íbúðarkaup, liðlega 2 þús. manns eru í þeirri stöðu að vera með yfirveðsett húsnæði í skilningi 110%-leiðarinnar, það er stærðin, en upphæðirnar eru háar.

Lífeyrissjóðirnir eru nú með til skoðunar drög að samkomulagi sem var dregið upp á dögunum. Þeir skipuðu tíu manna starfshóp sem hefur fundað síðan og stefnt er að því að hann skili af sér núna í lok þessarar viku. Þá verða vonandi forsendur til þess að fara í formlegar viðræður að því tilskildu að allir séu tilbúnir til þess, þ.e. lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki.

Íbúðalánasjóður, að sjálfsögðu skiptir úrvinnslan þar miklu máli en hún er algerlega í samræmi við það sem Alþingi ákvað. Við höfum dregið að mikið af gögnum, sem væntanlega verða birt þegar þessari vinnu lýkur, frá Þjóðskrá, ríkisskattstjóra, Hagstofu Íslands, Seðlabankanum, Samtökum fjármálafyrirtækja, umboðsmanni skuldara o.s.frv. (Forseti hringir.)

Varðandi fjármuni sem ríkið er mögulega tilbúið til að verja í frekari lausn þessa skuldavanda mætti skipta því í tvennt, annars vegar spurninguna um hvort menn taka á sig einhvern einskiptiskostnaði vegna beinna aðgerða eins og niðurfærslu lána og/eða í hvaða mæli menn telja að hægt sé að styðja við þá hópa sem verða áfram í verulegum þrengingum í gegnum (Forseti hringir.) vaxtabóta- og barnabótakerfið og aðrar slíkar ráðstafanir, sem fæli þá í sér jú útgjöld jafnt og þétt á komandi árum en ekki háar einskiptisupphæðir í byrjun.