140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[16:02]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér á sér stað og þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að hefja máls á þessu viðamikla máli. Ég held að flestir sem rætt hafa um þetta mál, og ekki bara í dag heldur á undanförnum missirum, séu sammála um að þetta sé eitthvert brýnasta úrlausnarefni íslenskra stjórnmála í dag, þ.e. að vinna á þeim tekju- og efnahagsvanda sem við er að glíma og bæta hjá öllum landsmönnum.

Það eru hins vegar ákveðin atriði sem standa í vegi fyrir þeim úrlausnaratriðum sem lúta að skuldamálum heimilanna, eflingu atvinnulífs og bættri stöðu ríkissjóðs. Það kann að vera að það liggi fyrst og fremst í því að við erum með mjög mikil og stór ágreiningsmál uppi sem í rauninni skipta þessi þrjú atriði ekki neinu sérstöku máli. Þar á ég við mál eins og Evrópusambandsaðildarumsóknina, landsdómsmálið, fiskveiðistjórnarmálin o.s.frv. Þetta eru allt saman mál sem við þekkjum hér inni og hafa alið á ófriði og ýtt undir deilur frekar en sátt og samstarf. Staða mála er þannig að umtalsverður fjöldi heimila hefur fengið leiðréttingar, það ber að þakka, hvort heldur í gegnum auknar vaxtabætur eða sérstakar vaxtabætur, sömuleiðis í gegnum þá réttmætu leiðréttingu þegar gengislánin voru dæmd ólögmæt, og í gegnum niðurfellingar fjármálastofnana, bankanna, þar á meðal ríkisbankans Landsbankans með 20% af niðurfellingu lána.

En einn hópur stendur algjörlega eftir og það er sá hópur sem hefur verið í viðskiptum við Íbúðalánasjóð, ríkisfjármálastofnunina. Og við erum ekkert að ræða þann vanda hér. Að því borði verða allir stjórnmálaflokkar að koma og finna einhverja lausn því að þann hóp má ekki skilja eftir á köldum klaka. Það er mjög einfalt í mínum huga. Við eigum að leggjast öll á eitt um að finna lausnir sem þar ganga.