140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[16:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni í dag sem hefur verið góð og að einhverju leyti upplýsandi, vegna þess að ég tel að maður geti dregið þá ályktun að ríkisstjórnin hafi þau plön að reyna að koma til móts við þá sem eru með lánsveð, eitthvað sé í pípunum sem komi hugsanlega fram í næstu viku, og að tekið verði á barnabótakerfinu og spýtt í þar og einnig varðandi húsnæðisbætur sem hafa verið talsvert í umræðunni.

Þá er það bara spurning mín sem hæstv. ráðherra náði ekki að svara: Hvað með þá sem eru með lán hjá Íbúðalánasjóði og hafa ekki fengið samsvarandi úrræði og þeir sem voru og eru hjá bönkunum?

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti gefið okkur einhverjar upplýsingar um hvenær tillögur ríkisstjórnarinnar koma fram, hvernig gangi eða hvort ríkisstjórnin sé að fylgja því eftir að bankarnir endurreikni þau lán sem á að endurreikna miðað við dóma Hæstaréttar, og hvort hann muni styðja að flýtimeðferðarmálið, sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lagði fram í upphafi og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur endurflutt í þinginu, fái framgöngu í þinginu. Það er auðvitað þannig að dómstólarnir verða að leysa úr ákveðnum málum, þannig bara virkar kerfið okkar. Þessi tillaga er góð og við eigum að setjast saman yfir hana og klára hana og afgreiða í gegnum þingið. Það er mikilvægt fyrir alla og það mundi líka einfalda vinnu okkar að einhverju leyti, vegna þess að það er betra að dómstólarnir taki á málunum en að við séum að grípa til aðgerða sem síðan eru dæmdar ólöglegar.

Mig langar að þakka fyrir þessar upplýsingar og fagna þeirri skýrslu sem birtist í Hagtíðindum í dag. Það er eins og þetta hafi verið pantað, ég var að kalla eftir frekari upplýsingum og vesgú, þær koma nokkrum klukkutímum fyrir umræðuna, það er mjög þægilegt. En í allri þeirri vinnu sem hefur staðið yfir við að reyna að finna lausn á skuldavanda heimilanna frá því að ég tók hér sæti, hefur maður verið að fiska í gruggugu vatni, reynt að átta sig á því hver staðan er (Forseti hringir.) raunverulega. Er hæstv. ráðherra sannfærður um það núna að við höfum (Forseti hringir.) það mikið af upplýsingum í höndunum að við getum tekið ákvarðanir sem eru kostnaðarsamar fyrir almenning, við förum (Forseti hringir.) hér með skattfé almennings og verðum að standa traustum fótum þar?

(Forseti (ÞBack): Enn og aftur vill forseti áminna um ræðutíma.)